Tíska og hönnun

Einstakur myndaþáttur Viðars Loga tekinn í ljósaskiptunum

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
flík
Viðar Logi

Herferðin „Íslensk flík“ er farin aftur af stað, en verkefnið vakti mikla athygli á HönnunarMars í sumar. Íslensk flík er vitundarvakning Fatahönnunarfélags Íslands sem miðar að því að kynna íslenska fatahönnun og vekja athygli á því framúrskarandi hugviti og þeim fjölbreyttu vörum sem íslensk fatahönnunarfyrirtæki bjóða upp á ásamt þeim möguleikum sem felast í greininni.

„Fatahönnun er ungt fag á Íslandi og þrátt fyrir stöðugan vöxt er greinin ekki eins rótgróin og í mörgum löndum,“ segir Ásgrímur Már Friðriksson hönnuður í samtali við Vísi. Hann hvetur fólk til að taka þátt með því að birta myndir af íslensku flíkunum sínum á samfélagsmiðlum undir merkinu #íslenskflík. Hluti af verkefninu er einstakur myndaþáttur þar sem eingöngu er að finna íslenska hönnun. 

„Í þetta skipti fengum við snillinginn Viðar Loga til þess að skapa töfra. Myndaþátturinn var skotin í ljósaskiptum, bæði kvöld og morgna, þar sem módelin svífa í loftinu en það tók tæpa viku að fanga myndaþáttinn. Verkefnið í þetta skiptið er stutt af Miðborgarsjóði Reykjavíkurborgar og verða myndirnar úr herferðinni settar í glugga í rými á Laugavegi 114,“ segir Ási.

Viðar Logi

Ánægjulegt að fá lausan taum

Ljósmyndarinn Viðar Logi segir í samtali við Vísi að hugmyndin á bak við myndatökuna hafi verið draumkennd, frjálsleg, heit og lifandi. Það gekk ekki auðveldlega að framkvæma hana.

„Martröð, kalt, erfitt og vesen. Sem endurspeglar engan vegin hversu sjúklega fyndið og skemmtilegt þetta var. Það er alltaf mjög ánægjulegt að fá traust og lausan taum þegar kemur að verkefnum, sem Fatahönnunarfélag Íslands veitti okkur. Það var frábært að vinna með þeim, teyminu sem kom að tökunni og fyrirsætunum í brunafrostinu. #tískugreindirunglingarámótiþyngdarlögmáliNewtons,“ segir Viðar Logi.

Viðar Logi

Nokkrar myndir úr herferðinni má finna hér í fréttinni en þær eru allar eftir ljósmyndarann Viðar Loga. Slílisti var Díana Breckmann og fleiri myndir má finna á síðu verkefnisins Íslensk flík.

Flóknar aðstæður

Steinunn Björg Hrólfsdóttir fatahönnuður heldur utan um verkefnið en hún situr í stjórn Fatahönnunarfélags Íslands.

„Ég hef svo mikla trú á íslenskri fatahönnun og langar að stuðla að því að efla hana sem atvinnugrein og kynna hana fyrir almenningi,“ segir Steinunn í samtali við Vísi.

Viðar Logi

„Íslensk fatahönnun er ung atvinnugrein í vexti sem hefur mikla möguleika. Að mínu mati endurspeglar hún arfleið og þarfir samfélagsins okkar og er ákaflega mikilvægur partur af menningunni. Með því að kynna hana sérstaklega erum við að vonast til þess að ná til almennings og vekja fólk til umhugsunar um virði hönnunar og áhrifin sem það getur haft með því að velja íslenska hönnun.“

Íslensk hönnun er að hennar mati mjög fjölbreytt og eins og sjáist á þessu verkefni sé gróskan ótrúlega mikil.

„Ég myndi hins vegar segja að í dag væri sterk bylgja meðal hönnuða að finna leiðir til að vinna á nýjan hátt með innlend hráefni og framleiðslu. Þá myndi ég segja að sérkenni íslenskra hönnuða sé mikil útsjónarsemi en það er ótrúlegt hvað þeim tekst að skapa mikinn hágæða varning við flóknar aðstæður.“

Viðar Logi

Hún segir að það séu ýmsir kostir við að starfa sem fatahönnuður á Íslandi.

„Vegna smæðarinnar eru boðleiðir stuttar og auðvelt að koma sér á framfæri. Samfélag hönnuða er mjög náið og er mikil samstaða meðal þeirra. Hér er sterk hefð fyrir því að hönnuðir vinni sjálfstætt sem gefur þeim listrænt frelsi og fólk er almennt mjög opið og jákvætt fyrir nýjungum.“

Því miður séu áskoranirnar ansi margar. „Aðgangur að góðum framleiðslukostum er takmarkaður og innflutnings umhverfið er hamlandi. Þá er markaðurinn lítill. En þetta eru líka þættir sem að margir íslenskir hönnuðir hafa unnið með á skapandi hátt sem endurspeglast í frumlegri og umhverfisvænni efnisnotkun og nýrri nálgun á tískudagatalið. Við í fatahönnunarfélaginu erum líka alltaf að berjast fyrir bættu starfsumhverfi. Það sem ég myndi segja að væri stærsta áskorunin sé að það vantar fjárfestingu í greinina. Ef við lítum t.d. til hinna Norðurlandanna má sjá að fatahönnun er ein arðbærasta greinin innan hins skapandi geira og skilar miklum útflutningstekjum. Það er því til mikils að vinna og ég tel að íslensk hönnunarfyrirtæki hafi allt til brunns að bera. En þetta er einmitt það sem við erum að reyna að skapa umræðu um með þessu verkefni íslensk flík.“

Viðar Logi

Ein flík hefur áhrif

Steinunn segir að neytendur geti gert mjög mikið með því að velja að fjárfesta í íslenskri flík.

„Fyrir lítil fyrirtæki og sjálfstætt starfandi hönnuði er hver sala ótrúlega dýrmæt. Við erum einmitt líka að reyna að vekja fólk til umhugsunar með þessu átaki. Skoða í skápinn sinn og velta fyrir sér hvaðan fötin koma og hvað liggur að baki. Hvetja fólk til að skoða það sem er í boði en ég er viss um það kemur flestum á óvart hvað úrvalið af íslenskri fatahönnun er mikið og af miklum gæðum.“

Hún getur sjálf ómögulega valið eina íslenska flík í uppáhaldi.

„Akkúrat núna er langmest af fötum frá Geysi í skápnum mínum en þar hef ég starfað síðastliðin ár. Uppáhaldið þaðan þessa dagana eru nýju Geysis gallabuxurnar mínar sem ég hef ekki farið úr síðan ég fékk. Síðan er það silkiskyrta frá Anítu Hirlekar en mér líður alltaf eins og drottningu þegar ég er í henni. Síðan get ég ekki sleppt því að minnast á flauelsjakka frá KronbyKronKron sem að ég hef átt og notað í næstum tíu ár og elska enn jafn mikið og þegar ég fékk hann. Að lokum langar mig líka að nefna að mig dreymir um að eignast topp úr nýjustu línu Hildar Yeoman og vona að maðurinn minn lesi þetta fyrir jól.“

Viðar Logi

Hægt er að skoða nýju herferðina á heimasíðunni íslenskflík.is.

„Þar má líka finna alla hönnuðina sem standa að baki verkefninu og ætti að vera góður upphafspunktur til þess að velja íslenska flík fyrir jólin.“


Tengdar fréttir

„Þetta er eiginlega eins og fjársjóðsleit“

„Hluti af hugmyndafræðinni á bakvið Aftur er að sýna fólki fram á að það eru aðrar leiðir til að vera í tísku, starfa innan tískunnar, að endurvinna eldri fatnað til að búa til nútímafatnað,“ segir Bára Hólmgeirsdóttir hönnuður, eigandi og stofnandi Aftur.

Íslensk flík: Klæðumst því sem okkur er næst

#íslenskflík er verkefni Fatahönnunarfélags Íslands sem miðar að því að kynna íslenska fatahönnun og vekja athygli á því framúrskarandi hugviti og þeim fjölbreyttu vörum sem hér er að finna.

„Við erum með hörkureynslu í farteskinu“

Erna Hreinsdóttir og Ásgrímur Már Friðriksson hafa farið af stað með nýtt hönnunar- og markaðsstúdíó þar sem þau geta nýtt einstaklega vel sína reynslu úr tískubransanum. Þau hafa síðustu vikur unnið örþætti um fatahönnun í miðborginni og fer fyrsti þáttur í loftið á Vísi á morgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×