Valsmenn hafa verið stórtækir á félagsskiptamarkaðnum í Pepsi Max deild kvenna og virðast vera hvergi nærri hættir.
Morgunblaðið orðar tvær landsliðskonur við Val í frétt hjá sér í dag.
Dagný Brynjarsdóttir er sögð vera á leiðinni í Val og þá kemur einnig fram í fréttinni að Valur hafi einnig sett sig í samband við Svövu Rós Guðmundsdóttur sem hefur spilað undanfarin ár sem atvinnumaður í Noregi og Svíþjóð.
Báðar hafa þær Dagný og Svava Rós spilað áður með Val.
Dagný Brynjarsdóttir, landsliðskona Íslands í knattspyrnu og leikmaður Selfoss, er á leið í Val samkvæmt heimildum https://t.co/PIzFkOs9Ob. https://t.co/OuiG6XFz0P pic.twitter.com/HFhbpBQ8eS
— mbl.is SPORT (@mblsport) November 23, 2020
Dagný Brynjarsdóttir hefur orðið þrisvar sinnum Íslandsmeistari og tvisvar sinnum bikarmeistari með Valsliðinu en hún spilaði með liðin frá 2007 til 2013.
Síðan Dagný yfirgaf Val þó hefur hún orðið bandarísku háskólameistari með Florida State, þýskur meistari með Bayern München og bandarískur meistari með Portland Thorns.
Síðustu tímabil sín á Íslandi hefur Dagný spilað með Selfossi þar á meðal í sumar þar sem hún var með fimm mörk og þrjár stoðsendingar í 13 leikjum.
Svava Rós Guðmundsdóttir var með 6 mörk og eina stoðsendingu í sextán leikjum með Kristianstad í sænsku deildinni í ár og hjálpaði liðinu að vinna sér sæti í Meistaradeildinni í fyrsta sinn.