Fótbolti

Ingibjörg skoraði fyrsta markið þegar Vålerenga fór áfram í Meistaradeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ingibjörg Sigurðardóttir skoraði fyrsta mark leiksins en hún spilar í vörninni.
Ingibjörg Sigurðardóttir skoraði fyrsta mark leiksins en hún spilar í vörninni. Getty/VI Images

Íslenska landsliðskonan Ingibjörg Sigurðrdóttir var á skotskónum í 7-0 sigri Vålerenga á litháenska liðinu Gintra-Universitetas í annarri umferð forkeppni Meistaradeildarinnar í dag.

Vålerenga er því eitt af 32 liðunum sem verða í pottinum þegar útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar hefst.

Ingibjörg Sigurðrdóttir skoraði fyrsta mark leiksins á 19. mínútu og kom sínu liði á blað.

Ingibjörg skoraði þá með skalla eftir hornspyrnu frá hinni hollensku Sherida Spitse.

Hin danska Rikke Madsen kom Vålerenga í 2-0 á 33. mínútu og þriðja markið í uppbótatíma fyrri hálfleiks var líklega sjálfsmark þó að UEFA skrái það á hina serbnesku Dejönu Stefanović.

UEFA-síðan skráði líka stoðsendingu á Ingibjörgu í þriðja markinu en Twitter-síða Vålerenga er ekki alveg sammála því.

Það er mikið í gangi hjá liðinu þessa dagana enda Vålerenga liðið að keppa á þremur vígstöðvum. Þjálfarinn gat því leyft sér að hvíla Ingibjörgu og hann tók hana því af velli í hálfleik.

Dejana Stefanović, Ajara Nchout og Synne Jensen bættu við mörkum í seinni hálfleiknum auk þess að Gintra skoraði eitt sjálfsmark og Vålerenga vann því á endanum stórsigur.

Cloé Eyja Lacasse og félagar í Benfica komust líka áfram í 32 liða úrslitin með 2-1 útisigri á Anderlecht í Belgíu í gær. Nycole Raysla skoraði bæði mörkin fyrir Benfica liðið.

Í 32 liða úrslitunum eru Sara Björk Gunnarsdóttir og félagar hennar í franska liðinu Lyon sem og Glódís Perla Viggósdóttir og félagar hennar í sænska liðinu Rosengård. María Þórisdóttir og Chelsea liðið er einnig í pottinum.

Þar verður líka skoska liðið Glasgow City sem vann Val í vítakeppni á Hlíðarenda í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×