Sven Wollter, einn ástsælasti leikari Svía, er látinn, 86 ára að aldri. Í tilkynningu frá fjölskyldu leikarans segir að hann hafi látist af völdum Covid-19.
Wollter fæddist þann 11. janúar 1934 og hóf leiklistarferil sinn í leikhúsinu í Norrköping á sjöunda áratug síðustu aldar en færði sig síðar yfir í Vasaleikhúsi Stokkhólmsborgar. Má segja að hann hafi slegið í gegn þegar hann fór með titilhlutverkið í leikritinu Gústaf III.
Wollter fór með hlutverk í miklum fjölda sjónvarpsþátta og kvikmynda. Má þar nefna að hann fór með hlutverk í fyrstu Beck-myndinni, Mannen på taket, frá árinu 1976.
Þá fór hann einnig með hlutverk í myndinni Änglagård frá árinu 1992 og Jerúsalem, mynd Bille August frá árinu 1996.
Wollter var einnig nokkuð iðinn við að tjá sig um samfélagsleg málefni og var hann yfirlýstur kommúnisti.