Fótbolti

Viðar Ari á skotskónum, Alfons og Ingibjörg á toppnum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Alfons Sampsted átti góðan leik í hægri bakverði Bodø/Glimt í dag.
Alfons Sampsted átti góðan leik í hægri bakverði Bodø/Glimt í dag. Bodø/Glimt

Bodø/Glimt marði Kristiansund á útivelli í dag. Lokatölur 3-2 gestunum í vil sem tróna sem fyrr á toppi deildarinnar. Nú með 16 stiga forystu á Molde sem er í 2. sætinu. Alfons lék að venju allan leikinn í hægri bakverði Bodø/Glimt og átti glimrandi leik.

Viðar Ari Jónsson skoraði eitt marka Sandefjord er liðið gerði 3-3 jafntefli við Brann á heimavelli í dag. Viðar Ari hóf leikinn á hægri væng liðsins en var tekinn af velli á 81. mínútu. Emil Pálsson kom inn af varamannabekk liðsins og fékk gult spjald.

Þá var Jón Guðni Fjóluson á sínum stað í hjarta varnarinnar hjá Brann.

Sandefjord er í 11. sæti á meðan Brann er í 12. sæti deildarinnar.

Hólmar Örn Eyjólfsson lék allan leikinn í vörn Rosenborg er liðið vann 1-0 sigur á Start. Þá fór Axel Óskar Andrésson meiddur af velli eftir rúmlega klukkustundarleik er lið hans Viking gerði 1-1 jafntefli við Stabæk.

Rosenborg er í 3.sæti, aðeins stigi á eftir Molde, á meðan Viking er í 7. sætinu.

Þá eru Ingibjörg Sigurðardóttir og stöllur hennar í Vålerenga komnar á topp norsku úrvalsdeildarinnar eftir 4-2 sigur á Lilleström í kvöld. Vålerenga er nú með 35 stig á toppi deildarinnar á meðan Rosenborg er með 34 stig.

Ingibjörg lék allan leikinn í miðverði toppliðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×