Aðgerðir heilbrigðisráðherra verða kynntar á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar með fulltrúum þríeykisins klukkan 13 í Silfurbergi í Hörpu. Róbert Marshall, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, staðfestir tímasetninguna við fréttastofu.
Von er á að tilkynnt verði á fundinum um hertar aðgerðir hér á landi vegna kórónuveirunnar.
Ríkisstjórnin hefur verið á fundi í Ráðherrabústaðnum í morgun sem hófst klukkan níu. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir skilaði sínum tillögum um aðgerðir hér á landi í minnisblaði í gær.
Hann hefur talað fyrir hertum aðgerðum, bæði innanlands og á landamærum.
Tilkynningu vegna fundarins, sem brast klukkan 11:38, má sjá að neðan.
Ríkisstjórnin boðar til blaðamannafundar í Hörpu í dag, föstudaginn 30. október kl. 13.00.
Fundurinn verður í Silfurbergi og er 20 manna hámark. Hægt verður að fylgjast með útsendingu á ruv.is og visir.is á meðan á fundinum stendur.
Boðið verður upp á spurningar úr sal og viðtöl að loknum fundi en fjölmiðlar eru beðnir um að hafa eins fáa í salnum og mögulegt er.
Minnt er á sóttvarnaráðstafanir og fjarlægðarmörk og er fjölmiðlafólk vinsamlegast beðið um að bera andlitsgrímu.
Reykjavík, 30. október 2020.