Fótbolti

Skoraði rangstöðuþrennu gegn Barcelona

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Álvaro Morata skorar eitt þriggja rangstöðumarka sinna gegn Barcelona.
Álvaro Morata skorar eitt þriggja rangstöðumarka sinna gegn Barcelona. getty/Daniele Badolato

Óheppnin elti Álvaro Morata, framherja Juventus, á röndum í leiknum gegn Barcelona í Meistaradeild Evrópu í gær. Þrisvar sinnum kom hann boltanum í mark Börsunga en var dæmdur rangstæður í öll þrjú skiptin.

Barcelona vann leikinn með tveimur mörkum gegn engu og er með fullt hús stiga á toppi G-riðils Meistaradeildarinnar. Juventus er með þrjú stig í 2. sæti riðilsins.

Ousmane Dembélé kom Barcelona yfir á 14. mínútu. Skömmu síðar hélt Morata að hann hefði jafnað en var dæmdur rangstæður. Spánverjinn kom boltanum aftur í netið eftir hálftíma en aftur fór flagg aðstoðardómarans á loft.

Á 55. mínútu skoraði Morata í þriðja sinn en enn og aftur var hann dæmdur rangstæður, nú með hjálp myndbandsdómgæslu. Öll rangstöðumörk Moratas má sjá hér fyrir neðan. Juan Cuadrado átti síðustu sendinguna á Morata í öllum rangstöðumörkunum.

Klippa: Rangstöðumörk Morata

Lionel Messi gulltryggði sigur Barcelona með marki úr vítaspyrnu í uppbótartíma. Lokatölur 0-2, Börsungum í vil.

Um helgina var einnig dæmt mark af Morata þegar Juventus gerði 1-1 jafntefli við Verona í ítölsku úrvalsdeildinni. Um þarsíðustu helgi gerði Juventus 1-1 jafntefli við nýliða Crotone. Morata skoraði mark Juventus og annað til sem var dæmt af.

Þá skoraði Morata bæði mörk Juventus í 0-2 sigri á Dynamo Kiev í 1. umferð riðlakeppni Meistaradeildarinnar í síðustu viku. Hann hefur alls skorað þrjú mörk á tímabilinu en þau hefðu getað verið mun fleiri.


Tengdar fréttir

Ronaldo mjög pirraður að vera enn frá

Cristiano Ronaldo er ekki í leikmannahóp Juventus í leik þeirra gegn Barcelona í kvöld þar sem hann er með kórónuveiruna. Samkvæmt Ronaldosjálfum er hann samt við hestaheilsu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×