Kona lést í eldsvoða í íbúðarhúsi í uppsveitum Borgarfjarðar í gær. Við komu slökkviliðs og lögreglu á vettvang var íbúðarhúsið alelda.
Allt tiltækt lið Slökkviliðs Borgarfjarðar var kallað út vegna eldsvoðans í gær en tilkynning um mikinn eld í íbúðarhúsi sveitabæjar í Hálsasveit í Borgarfirði barst skömmu fyrir klukkan sex í gærkvöldi.
Aðstæður til slökkvistarfs voru erfiðar en slökkvilið náði tökum á eldinum um þremur tímum eftir komu á vettvang. Húsið er gjörónýtt, að því er segir í tilkynningu frá lögreglunni á Vesturlandi.
Slökkvistarfi lauk um kl. 23 í gærkvöldi en að því komu slökkvilið frá öllum starfsstöðvum slökkviliðs Borgarfjarðar auk þess sem aðstoð barst frá slökkviliði Akraness og Hvalfjarðarsveitar.
Ein manneskja var í húsinu þegar eldurinn kom upp og lést hún í brunanum. Ekki er vitað um eldsupptök og er rannsókn á frumstigi. Lögreglan á Vesturlandi, ásamt tæknideild lögreglunnar á Höfuðborgarsvæðinu, rannsakar eldsupptök.