Fótbolti

7 dagar í Meistaradeildina: Fyrstu fullkomnu meistararnir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Philippe Coutinho, Thiago og Robert Lewandowski fagna sigri Bayern München í Meistaradeildinni í ágúst.
Philippe Coutinho, Thiago og Robert Lewandowski fagna sigri Bayern München í Meistaradeildinni í ágúst. Getty/M. Donato

Riðlakeppni Meistaradeildarinnar hefst á nýjan leik eftir viku. Meistaradeildin fer vanalega af stað í september en kórónuveiran hefur breytt miklu. Fyrstu leikirnir verða í riðlum E til H þriðjudaginn 20. október.

Það eru bara rétt rúmir fimmtíu dagar síðan að Bayern München tryggði sér sigur í Meistaradeildinni í fyrsta sinn í sjö ár en þýska liðið átti magnað Meistaradeildartímabil á síðustu leiktíð.

Frammistaða meistara Bayern München í Meistaradeildinni var söguleg og í raun einstök. Bayern München varð fyrsta liðið í sögu Meistaradeildarinnar til að vinna alla leiki sína á einu tímabili.

Bayern München vann alla ellefu leiki sína og aðeins færri leikir komu í veg fyrir nýtt markamet. Bayern liðið vantaði tvö mörk til að jafna markamet Barcelona frá 1999-2000 tímabilinu. Barcelona skoraði þá 45 mörk í 16 leikjum en Bæjarar voru með 43 mörk í 11 leikjum og skoruðu því 3,91 mark í leik sem er auðvitað met.

Eftirminnilegustu frammistöður Bayern liðsins á tímabilinu voru auðvitað 8-2 sigur liðsins á Barcelona í átta liða úrslitunum og 7-2 útisigurinn á Tottenham í riðlakeppninni. Bæjarar unnu líka samanlagðan 7-1 sigur á Chelsea í sextán liða úrslitunum og unnu 3-0 sigur á Lyon í undanúrslitunum.

Í úrslitaleiknum á móti Paris Saint-Germain lét Bayern eitt mark nægja en það skoraði Kingsley Coman eftir frábæra liðssókn og stoðsendingu frá Joshua Kimmich.

Þetta er í annað skiptið sem Bayern München nær að vinna þrennuna, það er deild, bikar og Meistaradeildina á sama tímabili en þessu náði þýska liðið líka tímabilið 2012-13. Aðeins eitt annað félag í Evrópu hefur náð því tvisvar en Barcelona tókst það líka leiktíðirnar 2008-09 og 2014-15.

Það athyglisverða við frammistöðu Bayern að tímabilið byrjaði það illa heima fyrir að félagið rak Niko Kovac í byrjun nóvember. Bayern vann því þrjá fyrstu leikina á Meistaradeildartímabilinu undir stjórn Króatans.

Hans-Dieter Flick tók við liðinu, fyrst tímabundið, en var svo fastráðinn í apríl. Undir hans stjórn þá fór liðið taplaust í gegnum 30 síðustu leikina á leiktíðinni og vann 29 þeirra.

Bayern München hefur titilvörn sína á heimavelli á móti Liverpool-bönunum í Atlético Madrid miðvikudaginn 21. október en auk þeirra i riðlinum eru Red Bull Salzburg og Lokomotiv Moskva.

Meistaradeildin verður áfram í beinni á Stöð 2 Sport og þar verða líka Meistaradeildarmessan og Meistaradeildarmörkin á hverju kvöldi sem leikir fara fram í riðlakeppninni.  Fyrstu leikirnir í beinni verða Dynamo Kiev-Juventus (Þriðjudagurinn 20. október klukkan 16.45) og PSG-Manchester United (Þriðjudagurinn 20. október klukkan 18.50).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×