Matthías Vilhjálmsson mun í janúar ganga í raðir FH eftir átta ár í atvinnumennsku. Þetta var staðfest í gær.
Frá því í upphafi árs 2019 hefur Matthías verið á mála hjá Vålerenga sem hann nú yfirgefur eftir yfirstandandi leiktíð.
„Ég hef verið lengi í Noregi. Ég átti frábæran tíma hjá Start, upplifði mikinn árangur í Rosenborg og síðustu tvö ár í Vålerenga hafa verið mjög fín,“ sagði Matthías í samtali við heimasíðu Vålerenga.
Ísfirðingurinn segir að þegar FH hafi komið á borðið og sú ástæða að fjölskyldan var byrjuð að huga að flutningum heim til Íslands, hafi þetta verið afgreitt nokkuð snaggaralega.
„Ég hef verið með í að byggja upp félagið á nýjan leik og það er mikið spennandi sem er í gangi hérna. Þegar ég fékk tilboðið um að hjálpa mínu gamla liði, sem ég var fyrirliði hjá, og á íslenska fjölskyldu sem vill fara heim, þá var afgreitt.“
Tímabilið í Noregi er enn í gangi og Matthías vill ljúka ferlinum í Noregi á góðan máta.
„Ég vil gera allt til þess að loka atvinnumannaferlinum á góðan hátt. Ég mun gefa allt fyrir Vålerenga og þetta lítur vel út. Við eigum marga möguleika. Ég hef mikla trú á Vålerenga á næstunni,“ sagði Matthías.