Fótbolti

Segir að kórónuveirufaraldurinn hafi hjálpað Vålerenga að fá Viðar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Viðar Örn Kjartansson var ekki lengi að stimpla sig inn hjá Vålerenga.
Viðar Örn Kjartansson var ekki lengi að stimpla sig inn hjá Vålerenga. getty/Stanislav Krasilnikov

Það tók Viðar Örn Kjartansson aðeins átta mínútur og 45 sekúndur að skora þrennu í fyrsta leik sínum fyrir Vålerenga þegar liðið lagði Brann að velli, 5-1, í norsku úrvalsdeildinni í gær.

Dag-Eilev Fagermo, þjálfari Vålerenga, var að vonum ánægður með Viðar eftir leikinn og sagði að ef ekki hefði verið fyrir kórónuveirufaraldurinn hefði Selfyssingurinn líklega endað í sænsku úrvalsdeildinni. Viðar kom til Vålerenga á frjálsri sölu frá Rostov í Rússlandi.

„Kórónuveiruástandið er mjög sorglegt. En til að vera alveg heiðarlegur hefðum við átt í vandræðum með að fá Viðar ef ekki hefði verið fyrir faraldurinn,“ sagði Fagermo.

„Stór félög í Svíþjóð vildu fá hann. En þau hafa orðið fyrir þungu fjárhagslegu höggi vegna áhorfendaleysis. Okkur hefur ekki blætt á sama hátt.“

Viðar var m.a. orðaður við Malmö og Hammarby en endaði hjá Vålerenga. Hann lék með liðinu 2014 og varð þá markakóngur norsku úrvalsdeildarinnar.

Viðar hefur alls skorað 34 mörk í 34 leikjum með Vålerenga. Liðið er í 5. sæti norsku úrvalsdeildarinnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×