Jacob Blake er lamaður fyrir neðan mitti eftir að lögreglumaður skaut hann margsinnis í bakið í borginni Kenosha í Wisconsin gær. Ekki liggur fyrir hvers vegna lögregla hafði afskipti af Blake en myndbönd af vettvangi sýna lögreglumann grípa í hann og hleypa af skotum. Mótmæli hafa brotist út vegna atviksins og var þjóðvarðliðið kallað út.
Á vef AP fréttaveitunnar er haft eftir lögmanni Blake að mænan hafi farið í sundur og skemmdir hafi orðið á einhverjum líffærum. Blake var í aðgerð þegar rætt var við lögmanninn.
„Það þarf kraftaverk svo Jacob Blake Jr. geti gengið aftur,“ sagði Ben Crump lögmaður Blake.
Að sögn Crump mun Blake leita réttar síns vegna skotárásarinnar. Lögreglan í Kenosha hefur veitt litlar upplýsingar um atburðarásina en segja útkallið hafa komið til vegna tilkynningar um heimilisdeilur.
Stærstu íþróttalið Wisconsin-ríkis hafa kallað eftir breytingum vegna málsins. Aaron Rodgers, leikstjórnandi Green Bay Packers, sagði kerfið vera gallað og lögin fordómafull gagnvart minnihlutahópum.
Faðir Blake, Jacob Blake eldri, hefur gagnrýnt lögregluna harðlega og furðar sig á því að lögreglumaðurinn hafi skotið son sinn fyrir framan fjölskylduna. Blake er þriggja barna faðir og eru börnin sögð hafa orðið vitni að því þegar faðir þeirra var skotinn.
„Þeir skutu son minn sjö sinnum, eins og hann skipti ekki máli. En sonur minn skiptir máli. Hann er manneskja og skiptir máli.“