Það er óhætt að segja að ýmislegt hafi breyst frá því að Fram mætti síðast liði frá Akureyri í bikarúrslitaleik kvenna í handbolta. Fram og KA/Þór mætast í Laugardalshöll á morgun.
Fyrir 40 árum mættust Fram og Þór í bikarúrslitaleiknum og fór leikurinn fram í Íþróttaskemmunni á Akureyri. Framarar voru 8-6 yfir í hálfleik og unnu að lokum níu marka sigur, 20-11.
Íþróttafréttamaðurinn Ívar Benediktsson rifjar leikinn upp á vef HSÍ og bendir á að lítil virðing virðist hafa verið borin fyrir leiknum því enginn fulltrúi HSÍ var á staðnum og enginn verðlaunagripur fyrir Framkonur til að taka við. Þá voru góð ráð dýr en Framkonur fengu engu að síður afhentan bikar til að stilla sér upp með á mynd. Ívar fékk Guðríði Guðjónsdóttur til að rifja leikinn upp en hún var markahæst hjá Fram með níu mörk:
„Ég man eftir leiknum en fyrst og fremst situr það helst eftir í minningunni að enginn var bikarinn né fulltrúi HSÍ á staðnum. Til að afhenda einhvern bikar í leikslok þá var fenginn bikar að láni frá Íþróttabandalagi Akureyrar. Aðstæður og umgjörð bikarúrslitaleikja er allt önnur í dag sem betur fer og ég get lofað því að svona nokkuð gæti aldrei gerst í dag,“ sagði Guðríður sem situr nú í stjórn HSÍ og er formaður landsliðsnefndar kvenna.
Þá bendir Ívar á að umfjöllun um leikinn fyrir 40 árum í fjölmiðlum hafi verið af skornum skammti og að eitt dagblaðanna hafi látið þrjár vikur líða frá leikslokum og þar til að það birti mynd af bikarmeisturunum:
Söguupprifjunina má nálgast í heild hér en úrslitaleikurinn í ár hefst kl. 13.30 á morgun í Laugardalshöll.