Enski boltinn

Klopp: Hélt að þetta met félli aldrei

Sindri Sverrisson skrifar
Sadio Mané skoraði sigurmark Liverpool gegn West Ham og kyssti grasið á Anfield.
Sadio Mané skoraði sigurmark Liverpool gegn West Ham og kyssti grasið á Anfield. vísir/getty

Jürgen Klopp, stjóri Liverpool, er stoltur af að liðið hafi jafnað met Manchester City yfir flesta sigurleiki í röð í ensku úrvalsdeildinni. Hann segist ekki hafa fundið fyrir stressi, 2-1 undir gegn West Ham í kvöld.

Liverpool vann West Ham 3-2 í kvöld þrátt fyrir að vera undir þegar 25 mínútur voru til leiksloka og hefur nú jafnað met Manchester City sem vann 18 leiki í röð veturinn 2017-18. Liverpool þarf að vinna Watford á laugardag til að bæta metið.

„Ég hélt að þetta met yrði aldrei slegið eða jafnað. Við gerðum það og ég trúi hreinlega ekki að það hafi tekist. Mér fannst svo gott í kvöld hvernig allt jákvætt hjálpaði okkur. Þegar við jöfnuðum metin þá var fólkið í stúkunni á fullu og það hjálpaði okkur. Hvað svo sem gerist á þessu tímabili þá er það okkur öllum að þakka. Ég gæti ekki verið þakklátari fyrir stuðninginn sem við fáum. Hingað til hefur hann verið frábær,“ segir Klopp, sem vildi ekki tala mikið um hve stutt væri hugsanlega í að Liverpool landaði titlinum, og minnti á styrkleika Manchester City-liðsins.

Klopp segist ekki hafa verið órólegur í stöðunni 2-1 í kvöld og það hafi hjálpað til hve góður stuðningurinn var:

„Ég skynjaði ekki neinn taugatrekking á Anfield. Ég held að ekki nokkur maður hafi haldið að þetta væri ekki hægt [að vinna leikinn]. Það var bara 51 mínúta búin og mikill tími eftir. Við vorum svolítið heppnir. Lukasz Fabianski myndi vanalega verja skotið frá Mohamed Salah og Sadio Mané var svolítið heppinn með sitt mark vegna þess hvernig skotið fór af varnarmanni í aðdragandanum. Besta markið var það sem var dæmt af, það var mjög flott mark,“ segir Klopp en Mané skoraði mark undir lok leiks sem var dæmt af vegna rangstöðu.


Tengdar fréttir

Liverpool enn nær titlinum með aðstoð Fabianski

Liverpool er komið með 22 stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar eftir 3-2 sigur gegn West Ham á Anfield í kvöld. West Ham var yfir þegar 25 mínútur voru til leiksloka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×