Selfoss vann sinn þriðja leik í röð í Olís-deild karla þegar liðið lagði Stjörnuna að velli í gær, 29-33. Guðjón Guðmundsson fór yfir leikinn.
Stjarnan rústaði Selfossi, 34-21, í 8-liða úrslitum Coca Cola-bikarsins fyrr í mánuðinum en Selfyssingar hefndu fyrir tapið í gær.
Selfoss var fjórum mörkum yfir í hálfleik, 11-15, og það bil náði Stjarnan aldrei að brúa.
Haukur Þrastarson skoraði átta mörk fyrir Selfoss og Magnús Öder Einarsson sjö. Sá síðarnefndi var hógvær í leikslok.
„Það er mjög auðvelt að skapa sér eitthvað í sókninni þegar áherslan á Hauk er svona mikil. Skotin sem fékk, annað hvort voru þeir pödduflatir eða ekki að hugsa um mig. Það hefðu allir getað skorað sjö mörk í dag,“ sagði Magnús.
Selfyssingar, sem hafa unnið fjóra af fimm leikjum sínum eftir áramót, eru í 5. sæti deildarinnar með 25 stig.
Stjörnumenn eru hins vegar í 8. sætinu og enda að öllum líkindum þar. Tandri Már Konráðsson og Leó Snær Pétursson skoruðu átta mörk hvor fyrir Stjörnuna í leiknum í gær.
Fréttina í heild sinni má sjá hér fyrir neðan.