Fótbolti

Meistaradeildarævintýri Söru með Lyon í beinni á Stöð 2 Sport

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir er þegar búin að vinna titil með Lyon en hún varð franskur bikarmeistari á dögunum.  Hér er mynd af henni með bikarinn sem Sara setti inn á Instagram síðuna sína.
Sara Björk Gunnarsdóttir er þegar búin að vinna titil með Lyon en hún varð franskur bikarmeistari á dögunum.  Hér er mynd af henni með bikarinn sem Sara setti inn á Instagram síðuna sína. Mynd/Instagram

Stöð 2 Sport hefur tryggt sér sýningarréttinn að Meistaradeild Evrópu kvenna frá og með átta liða úrslitunum. Allir sjö leikirnir sem eftir eru verða sýndir beint.

Átta lið eru eftir í Meistaradeild Evrópu og líkt og hjá körlunum verður úrslitakeppnin kláruð á rúmri viku. Allir leikirnir fara fram í Baskalandi á Norður Spáni en spilað verður á heimavöllum spænsku úrvalsdeildarliðanna Athletic Bilbao (San Mamés) og Real Sociedad (Anoeta leikvangurinn).

Við Íslendingar eigum mjög flottan fulltrúa í lokaúrslitum Meistaradeildarinnar í ár því landsliðsfyrirliðinn Sara Björk Gunnarsdóttir gekk nýverið til liðs við Evrópumeistara Olympique Lyon. Lyon-liðið hefur unnið Meistaradeildina undanfarin fjögur ár.

Átta liða úrslitin fara fram föstudaginn 21. ágúst og laugardaginn 22. ágúst.

Undanúrslitaleikirnir verða spilaðir 25. og 26. ágúst og úrslitaleikur Meistaradeildarinnar í ár fer síðan fram sunnudaginn 30. ágúst næstkomandi.

Olympique Lyon mætir þýska liðinu Bayern München í átta liða úrslitunum laugardaginn 22. ágúst og vinni liðið leikinn spila Sara Björk og félagar við Arsenal eða Paris Saint-Germain í undanúrslitunum miðvikudaginn 26. ágúst.

Á hinum vængjum berjast síðan Atlético Madrid, Barcelona, Glasgow City og Wolfsburg um hitt sætið í úrslitaleiknum.

Olympique Lyon hefur unnið Meistaradeild kvenna undanfarin fjögur ár. Liðið vann Barcelona 4-1 í úrslitaleiknum í fyrra, Wolfsburg 4-1 í framlengingu í úrslitaleiknum 2018, Paris Saint-Germain 7-6 í vítakeppni 2017 og svo Wolfsburg 4-3 í vítakeppni í úrslitaleiknum 2016.

Síðasta liðið til að vinna Meistaradeildina á undan Lyon var þýska liðið Frankfurt sem vann úrslitaleikinn árið 2015.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×