Fótbolti

Messi gæti farið fyrir frítt frá Barcelona í sumar ef hann vill

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi ræður sinni framtíð sjálfur. Hér er hann með Gullboltann sem hann vann í sjötta sinn í fyrra.
Lionel Messi ræður sinni framtíð sjálfur. Hér er hann með Gullboltann sem hann vann í sjötta sinn í fyrra. Getty/Alex Caparro

Ímyndaðu þér að að fá Lionel Messi á frjálsri sölu í sumar. Það er möguleiki ef marka má fréttir spænskra og enskra miðla í kringum um opinberar deilur Lionel Messi og íþróttastjórans Eric Abidal.

Börsungar eru á fullu að sætta menn á bak við tjöldin og Eric Abidal verður áfram íþróttastjóri félagsins þrátt fyrir óánægju Lionel Messi.

Messi var mjög ósáttur með að Eric Abidal kenndi leikmönnum um að Ernesto Valverde var rekinn af því að hans mati vildu sumir leikmenn Barcelona ekki lengur leggja sig fram fyrir þjálfann sinn. Messi svaraði þessu opinberlega, sem er mjög óvanalegt hjá honum, en hann var ekki hress með það að Abidal skildi ekki nefna einstök nöfn, heldur henda öllum leikmönnum liðsins undir rútuna.



Forráðamenn Barcelona þurfa hins vegar að tipla svolítið á tánum í kringum stórstjörnu sína því Messi sá til þess í nýjustu samningagerð sinni að hann er með öll spilin á sinni hendi í sumar.

Í nýjasta samningi Lionel Messi við Barcelona er nefnilega ákvæði um að Lionel Messi megi fara frá félaginu á frjálsri sölu í sumar vilji hann það og Barcelona getur ekkert gert til þess að stoppa hann.

Samningurinn nær annars til 30. júní 2021 en þá verður Messi nýorðinn 34 ára gamall. Hann heldur upp á 33 ára afmælið sitt í sumar og gæti tekið þá ákvörðun að prófa eitthvað nýtt á síðustu árum sínum í boltanum.



Messi er ekki mikið að gefa eftir því hann er með 19 mörk og 12 stoðsendingar í 24 leikjum með Barcelona í öllum keppnum á þessu tímabili þar af 14 mörk og 8 stoðsendingar í spænsku deildinni.

Messi hefur spilað alla tíð með Barcelona og á flest öll metin hjá félaginu. það búast flestir við að hann klári ferilinn hjá spænska félaginu en þá þurfa forráðamenn Barcelona líka að halda honum góðum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×