Innlent

Gul við­vörun í gildi víða næstu daga og fjórar lægðir í kortunum

Eiður Þór Árnason skrifar
Lægðirnar halda áfram að streyma yfir landið.
Lægðirnar halda áfram að streyma yfir landið. Veðurstofan

Gul viðvörun vegna veðurs verður í gildi víða á landinu næstu daga. Í dag nær hún til Stranda og Norðurlands vestra, Vestfjarða og Norðurlands eystra.

Fyrir morgundaginn hefur Veðurstofan gefið út gula viðvörun fyrir Suðurland, Faxaflóa, Breiðafjörð, Vestfirði, Standir og Norðurland vestra, Suðausturland og Miðhálendið.

Talsverður hringlandaháttur er á lægðunum sem snúast um sjálfar sig í kringum landið og er hægt að greina fjórar lægðir á veðurtunglamyndum, er fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings.

Hvöss norðaustanátt verður á norðvestur- og vestanverðu landinu undir hádegi í dag og allhvöss vestlæg átt norðaustan- og austanlands, annars yfirleitt hægari vindur. Víða verður snjókoma eða él, en þurrt að kalla austantil. Lægir víða í nótt. Frost yfirleitt 0 til 8 stig.

Segir jafnframt í hugleiðingum veðurfræðings að æskilegt sé að ferðalangar og útivistarfólk fylgist vel með veðri því það geti fylgt allmikil úrkoma þessum lægðum þótt ekki séu þær miklar um sig og um tíma valdið mjög takmörkuðu skyggni og jafnvel skafrenningi.

Veðrið eftir helgi er sagt vera án stórra breytinga, norðaustan hvassviðri eða stormur og ofankoma, einkum fyrir norðan og austan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×