Innlent

Þór kemur við í Bolungarvík til að sækja fólk í áfallateymi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Myndin var tekin af áhöfninni á Þór í nótt.
Myndin var tekin af áhöfninni á Þór í nótt. landhelgisgæslan

Varðskipið Þór lagði af stað frá Ísafirði til Flateyrar laust eftir klukkan 9 í morgun með áfallateymi og matvöru.

Að því er fram kemur í Facebook-færslu Landhelgisgæslunnar mun Þór koma við í Bolungarvík þar sem tveir úr áfallateyminu verða sóttir. Er gert ráð fyrir því að skipið verði komið til Flateyrar um klukkan ellefu.

Skipið hefur verið til taks á Ísafirði síðustu daga vegna veðursins en í nótt flutti það björgunarsveitarfólk, lækni og lögreglumenn til Flateyrar sem voru ferjaðir í land með léttbátum skipsins í nótt.

Þór flutti unglingsstúlku sem lenti í öðru snjóflóðanna á Flateyri í gærkvöldi frá bænum til Ísafjarðar. Með í för var móðir stúlkunnar, Anna S. Sigurðardóttir, sem segir á Facebook-síðu sinni að þær mæðgur hafi farið á sjúkrahúsið á Ísafirði.

Hún hafi farið í betri bátsferðir en hún hefði ekki viljað sigla með öðru skipi. Dóttir hennar sé 100% í lagi, aðeins með nokkrar skrámur. Anna segir þetta þvílíkt kraftaverk enda var dóttir hennar grafin undir snjónum í 40 mínútur.

Kveðst hún ævinlega þakklát björgunarsveitinni á Flateyri fyrir snör handtök við að grafa dóttur hennar upp úr snjónum. Nú ætli þær mæðgur að hvíla sig eftir átök næturinnar.


Tengdar fréttir

Talsvert eignatjón en engin alvarleg slys á fólki eftir þrjú „mjög stór“ snjóflóð á Vestfjörðum

Alls féllu þrjú "mjög stór“ snjóflóð á Vestfjörðum undir miðnætti í gær líkt og það er orðað á vef Veðurstofu Íslands. Tvö við Flateyri, úr Skollahvilft og Innra-Bæjargili, og eitt gegnt Suðureyri í Norðureyrarhlíð sem skapaði flóðbylgju sem fór inn í bæinn. Tjón hefur orðið á eignum en engin alvarleg slys á fólki svo vitað sé.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×