Erlent

Samkomulag um björgunarpakkann í höfn

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Eftir um 90 klukkustund maraþonfundahöld náðu leiðtogar Evro´pusambandsins saman í nótt.
Eftir um 90 klukkustund maraþonfundahöld náðu leiðtogar Evro´pusambandsins saman í nótt. THIERRY MONASSE/GETTY

Leiðtogum Evrópusambandsins tókst í nótt að ná samkomulagi um 750 milljarða evra björgunarpakka sem ætlað er að endurreisa efnahag álfunnar eftir kórónuveirufaraldurinn. Leiðtogarnir hafa fundað síðan á föstudag og höfðu síðan þá rætt aðgerðirnar í rúmlega 90 klukkustundir, þar af fjórum sinnum fram á nótt, og eru þetta lengstu fundahöld Evrópuleiðtoga síðan árið 2000.

Hart var tekist á um hversu stór hluti upphæðarinnar skyldi vera styrkur til aðildarríkja og hversu stór hluti ætti að vera í formi lána. Voru það ekki síst fimm ríki, sem kölluð hafa verið „hin sparsömu,“ sem kröfðust þess að lán yrðu í fyrirrúmi í aðgerðunum; Danmörk, Svíþjóð, Finnland, Austurríki og Holland. Að endingu náðu leiðtogarnir saman um að rétt rúmlega helmingur, eða 390 milljarðar evra, verði styrkur.

Forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, Charles Michel, fagnar því að samkomulag hafi náðst og segir það marka þáttaskil fyrir Evrópu. Hann tilkynnti um niðurstöðuna með stuttu og hnitmiðuðu tísti á fjórða tímanum í nótt, skrifaði einfaldlega „Samkomulag!“

Samhliða björgunaraðgerðunum samþykktu leiðtogarnir fjárhagsáætlun Evrópusambandsins upp á rúmlega trilljón evra til næstu sjö ára. Nú taka við frekari umræður um aðgerðirnar á vettvangi aðildirraríkjanna, auk þess sem Evrópuþingið þarf að kvitta upp á björgunarpakkann.

Hér að neðan má sjá glefsu úr úr ræðu fyrrnefnds Michel eftir að samkomulagið var í höfn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×