Úkraínski fréttaþulurinn Marichka Padalko lenti í því óskemmtilega atviki að hluti af framtönn hennar losnaði í beinni útsendingu. Hún lét það þó ekki á sig fá og hélt ótrauð áfram með útsendinguna.
„Ég helt að enginn myndi taka eftir þessari uppákomu,“ skrifaði Padalko á Instagram-síðu sína þar sem hún birti myndband af atvikinu. Það megi þó ekki vanmeta vökul augu áhorfenda og hún kunni að meta kveðjurnar sem hún fékk í kjölfarið.
Hún greinir frá því að hún hafi þurft að láta gera við framtönnina fyrir um áratug síðan eftir að dóttir hennar sveiflaði vekjaraklukku með þeim afleiðingum að hún rakst í tönnina.
„Haltu ró þinni í öllum aðstæðum,“ sagði Padalko um atvikið sem má sjá í færslunni hér að neðan.