Forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar segir reikning til stjórnvalda vegna skimunarvinnu ekki á borðinu, enn sem komið er. Mikilvægast sé nú að flutningur vegna landamæraskimunar frá ÍE yfir á veirufræðideild Landspítalans gangi snurðulaust fyrir sig. Samið hefur verið fyrirtækið um að sinna skimunarvinnu sinni í viku til viðbótar.
Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar sagði í samtali við fréttastofu í morgun að mikil vinna hefði farið fram um helgina á milli veirufræðideildar Landspítalans og starfsmanna Íslenskrar erfðagreiningar. Unnið sé að flutningi skimunarvinnu á landamærunum vegna kórónuveirunnar og að sú samvinna hafi gengið vel.
Ráðgert var að veirufræðideildin tæki yfir alla vinnuna frá Íslenskri erfðagreiningu frá og með morgundeginum. Í því sambandi segir Kári að ákveðin dagsetning skipti ekki höfuðmáli, mikilvægast sé að allt gangi vel og flutningurinn skili sem mestum og bestum árangri.
Ekki beðin um að gefa vinnuna
Aðspurður um hvort Íslensk erfðagreining hygðist senda reikning fyrir skimunarvinnunni sagði Kári að íslensk stjórnvöld hefðu beðið fyrirtækið um að koma að skimunarvinnunni í upphafi faraldursins, þegar bráðavandi steðjaði að þjóðinni. Ekki hefði verið beðið um að Íslensk erfðagreining gæfi sína vinnu.
Hins vegar væru á þessu augnabliki engin áform um að senda reikning, mál málanna nú væri að flutningur frá ÍE til Landspítalans gengi vel. Allar ákvarðanir væru teknar í fullu samráði við Amgen, móðurfélag ÍE í Bandaríkjunum, að hans sögn.
Þá segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir að Íslensk erfðagreining hafi afhent veirufræðideildinni tiltekinn hugbúnað fyrir vinnslu sýna, kennslu og aðlögun að búnaðinum.
Framlengja um viku
Maríanna Garðarsdóttir, forstöðumaður rannsóknarþjónustu Landspítalans, segir í samtali við Ríkisútvarpið að ekki muni takast að koma upp búnaði til að taka við skimun ÍE fyrir morgundaginn. Því hafi verið samið við fyrirtækið um að halda áfram greiningum þar til spítalinn gettur aukið greiningarafköst sín, í hið minnsta viku til viðbótar.
Rúmlega 2100 sýni voru tekin á landamærunum í gær. Þrjú smit greindust, en beðið er eftir mótefnamælingu og því ekki vitað hvort þau séu virk eða ekki. Ekkert innanlandssmit hefur verð greint í 10 daga. 15 eru nú í einangrun og 77 í sóttkví.
Fréttin hefur verið uppfærð