Innlent

Stafræn ökuskírteini líta dagsins ljós

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri, Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á fundinum í dag.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri, Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á fundinum í dag. Vísir/Elísabet

Stafræn ökuskírteini voru formlega kynnt til sögunnar á blaðamannafundi í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Fundurinn hófst klukkan 11:30 og má sjá beina útsendingu frá fundinum hér að neðan.

Þar fjölluðu dómsmálaráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og ríkislögreglustjóri um fyrirhugaða útgáfu skírteinanna.

Eins og Vísir minntist á í morgun þá verða stafrænu ökuskírteinin jafngild hefðbundnum ökuskírteinum á Íslandi, sem verður áfram hægt að nota. Stafrænu skírteinin munu hins vegar ekki gilda annars staðar en hér á landi.

Fundinum lauk skömmu fyrir hádegi en hægt er að horfa á hann í heild sinni að neðan.

Í tilkynningu á vef stjórnarráðsins segir að hægt verði að nálgast skírteinin á upplýsingaveitunni Ísland.is með því að nota rafræn skilríki. „Stafræna ökuskírteinið gengur hvort tveggja fyrir Android- og iOS-stýrikerfi og góðar leiðbeiningar fylgja með umsóknarferlinu. Stafræn ökuskírteini verða jafngild hefðbundnum ökuskírteinum á Íslandi en megintilgangurinn er að notendur geti sannað ökuréttindi sín gagnvart lögreglu.“

Hvernig sæki ég stafrænt ökuskírteini?

  • Sótt er um stafræn ökuskírteini á vefnum Ísland.is þar sem notendur auðkenna sig með rafrænum skilríkjum. Með samþykki notenda fer sjálfvirkt umsóknarferli í gang og samstundis birtist tengill til að sækja skírteinið í símann.
  • Notendum Android-síma er bent á að sækja veski (e. Wallets) í símann áður stafrænu ökuskírteini er hlaðið niður.
  • Þeir sem hafa ekki endurnýjað ökuskírteini sín frá því fyrir árið 1998 þurfa að endurnýja þau hjá sýslumanni til að geta fengið stafrænt ökuskírteini í símann.
  • Einungis er hægt að hafa ökuskírteinið í einu símtæki. Ef það er sett upp á öðrum síma afvirkjast það í fyrsta tækinu.
  • Ökuskírteinin gilda aðeins á Íslandi.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×