Erlent

Umdeildur falinn fjársjóður fundinn í Bandaríkjunum

Samúel Karl Ólason skrifar
Forrest Flenn á að hafa falið fjársjóð í Klettafjöllunum árið 2010. Sá fjársjóður ku nú vera fundinn.
Forrest Flenn á að hafa falið fjársjóð í Klettafjöllunum árið 2010. Sá fjársjóður ku nú vera fundinn. AP/Jeri Clausing

Eftir áratugslanga leit hefur umdeildur falinn fjársjóður auðjöfursins Forrest Fenn verið fundinn í Klettafjöllum Bandaríkjanna. Fenn faldi fjársjóðinn árið 2010 og gaf hann út bók sem innihélt ljóð en það var í raun vísbending um hvar finna mætti fjársjóðinn og hefur hann haldið áfram að gefa út vísbendingar.

Fjársjóðurinn er sagður innihalda gull og eðalsteina og á hann að vera um tveggja milljóna dala virði.

Fenn hefur sagt fjölmiðlum vestanhafs að búið sé að finna fjársjóðinn en ítrekar að sá sem fann hann vilji ekki að nafns hans sé getið. Í færslu á bloggsíðu sem snýr að fjársjóðsleitinni segir Fenn að fjársjóðurinn hafi verið nákvæmlega þar sem hann faldi hann og að ljóðið hafi leitt aðilann sem fann hann að honum. Fenn segist ekki þekkja viðkomandi.

Hann segir þó að von sé á frekari upplýsingum og þakkaði þeim þúsundum sem hafa tekið þátt í leitinni.

Fjársjóðsleitin er ekki óumdeild. Talið er að allt að 350 þúsund manns hafi leitað fjórsjóðsins en minnst fimm hafa látið lífið við leitina. Þá hafa margir höfðað mál gegn Fenn og sakað hann um svik. Þar á meðal á þeim grundvelli að vísbendingar hans hafi verið afvegaleiðandi.

Fenn hefur sagt að fjársjóðskistan sjálf, með fjársjóðinum, hafi verið um tuttugu kíló og hann hafi ferjað hann á felustaðinn sjálfur í tveimur ferðum.

Í samtali við The New Mexican sagði Fenn að fundi fjársjóðsins fylgdu blendnar tilfinningar.

„Ég veit ekki, ég er nokkuð glaður og í senn sorgmæddur því leitinni er lokið,“ sagði Fenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×