Loftmyndir frá vettvangi gróðurbrunans í Norðurárdal í Borgarfirði í gærkvöldi og í nótt sýna umfang svæðisins þar sem eldarnir loguðu og slökkviliðsmenn börðust við í nótt. Svæðið þar sem eldurinn kom upp er nærri Paradísarlaut og fossinum Glanna, sem eru náttúruperlur við Bifröst.
Slökkviliðsmenn frá Borgarbyggð, Akranesi og Suðurnesjum börðust við eldana í um tíu klukkustundir en auk þeirra aðstoðuðu björgunarsveitir og lögregla á vettvangi. Hátt í hundrað manns komu að aðgerðum.

Slökkviliðsmenn mættir aftur í frágang eftir erfiða nótt
Slökkvistarfi lauk formlega um sexleytið í morgun þegar síðustu slökkviliðmenn skiluðu sér í hús.
Heiðar Örn Jónsson, varaslökkviliðsstjóri í Borgarbyggð, segir svæðið þar sem eldarnir loguðu stórt, um tíu til fimmtán hektarar. Slökkviliðsmenn hafi unnið í mjög erfiðu landslagi í hrauni.
„Menn eru vel þreyttir en mættir aftur á stöðvarnar í lokafrágang. Ég er gríðarlega stoltur af mínum mönnum og þakklátur þeim sem aðstoðuðu okkur í nótt,“ segir Heiðar.



