Fótbolti

Segir að gengið sé fram­hjá leik­­mönnum City og Liver­pool-maður fái lík­­lega verð­­launin í ár

Anton Ingi Leifsson skrifar
Bernardo Silva hjá Manchester City og Andy Robertson hjá Liverpool í baráttunni í leik liðanna fyrr í vetur.
Bernardo Silva hjá Manchester City og Andy Robertson hjá Liverpool í baráttunni í leik liðanna fyrr í vetur. Getty/Chloe Knott

Bernardo Silva, leikmaður Englandsmeistara Manchester City, segir að gengið hafi verið framhjá leikmönnum liðsins þegar einstaklingsverðlaun hafi verið veitt á Englandi undanfarin ár fyrir bestu leikmenn tímabilsins.

Síðustu tvö ár hafa leikmenn Liverpool unnið til verðlaunanna og við það er Silva ekki sáttur en hann segir að það bendi allt til þess að einhver úr herbúðum þeirra rauðklæddu vinni leikmaður ársins á Englandi þriðja árið í röð.

Síðast var það Virgil van Dijk sem tók verðlaunin og þar á undan Mo Salah þrátt fyrir að City hafi unnið deildina í bæði skiptin.

„Ég vona að þetta sé ekki slæmt dæmi og fólk taki þessu ekki illa en ég hugsa alltaf um tímabilið fyrir þremur árum síðan. Við unnum deildina og þeir voru 30 stigum á eftir okkur. De Bruyne átti stórkostlegt tímabil og Mo Salah skoraði fullt af mörkum. Ég ber mikla virðingu fyrir honum og hann er frábær leikmaður og fékk verðlaunin,“ sagði Silva þar sem hann spjallaði við BR Football í beinni á Instagram.

„Tímabilið þar á eftir var þetta mjög naumt. Raheem Sterling var á góðu skriði og þeir gáfu Van Dijk þetta. Á þessu tímabili hefur De Bruyne átt stórkostlegt tímabil en við erum á eftir þeim og þeir verða meistarar svo líklega verður þetta einn af þeim aftur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×