Innlent

Rannsaka sýni úr bakvarðasveitinni í kvöld

Sylvía Hall skrifar
Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða.
Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða. Vísir

Sýni sem tekin voru úr öðrum meðlimum bakvarðasveitarinnar á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík verða rannsökuð í kvöld. Konan sem var handtekin var send í veirupróf eftir handtökuna. Allir úr bakvarðasveitinni þurftu að fara á farsóttarheimili vegna konunnar.

Konunni var sleppt úr haldi eftir yfirheyrslu í dag en hún lýtur reglum um sóttkví. Samkvæmt heimildum fréttastofu framvísaði konan erlendum gögnum um starfsréttindi en konan deildi vistarverum með öðrum úr bakvarðarsveitinni.

Sjá einnig: Allir úr bakvarðasveitinni í Bolungarvík þurftu að fara á farsóttarheimili vegna konunnar sem var handtekin

Á vef RÚV er haft eftir Gylfa Ólafssyni, forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, að aðrir starfsmenn bakvarðasveitarinnar muni nú vinna eftir fyrirkomulagi sem kallast sóttkví B. Það fyrirkomulag var þróað á Landspítala og er viðhaft þegar lítil hætta er talin vera á smiti en þörf er á að grípa til varúðarráðstafana. Starfsfólk mun því fara til vinnu í fullum hlífðarbúnaði.

Þá er sérstök vakt á veirufræðideildinni sem mun rannsaka sýnin um leið og þau koma til Reykjavíkur og því gæti niðurstaða legið fyrir í nótt.

Í samtali við fréttastofu í dag sagði Gylfi að verkferlar yrðu skoðaðir við val úr bakvarðasveit.

„Í þessu tilviki verður að líta til þess að það var verið að safna saman í bakvarðarsveit með mjög skömmum fyrirvara við fordæmalausar aðstæður. Við höfum alltaf treyst á fólk og gerðum allt sem sneri að þessum starfsmanni í góðri trú,“ sagði Gylfi.

„Jú, maður þarf alltaf að vera á varðbergi. En ég held að allir skilji hvernig aðstæðurnar voru í þessu tilviki.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×