Innlent

Guðni náði lágmarkinu á klukkustund

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Guðni Th. Jóhannesson í Reykjavíkurmaraþoninu 2018.
Guðni Th. Jóhannesson í Reykjavíkurmaraþoninu 2018. Vísir/Vilhelm

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hefur safnað þeim undirskriftum sem forsetaefni þarf að hafa til að vera gjaldgengur í framboð.

Forsetinn tilkynnti um að söfnunin væri hafin í hádeginu. Jóhannes Jóhannesson, bróður forsetans sem er hluti af framboðsteyminu, segir á Facebook að lágmarksfjöldi hafi náðst um klukkustund eftir að söfnun hófst.

Hámarksfjöldi sem má skila náðist svo um fjögurleytið eða fjórum klukkustundum eftir að söfnunin hófst.

Undirskriftasöfnun er rafræn í ár vegna kórónuveirufaraldursins. Forsetaefni skal hafa meðmæli minnst 1.500 kosningabærra manna, en mest 3.000, sem skiptist þannig eftir landsfjórðungum:

Úr Sunnlendingafjórðungi : Að lágmarki 1.224 og hámarki 2.448

Úr Vestfirðingafjórðungi: Að lágmarki 59 og hámarki 117

Úr Norðlendingafjórðungi: Að lágmarki 160 og hámarki 320

Úr Austfirðingafjórðungi: Að lágmarki 57 og hámarki 115

Auk Guðna hafa Axel Pétur Axelsson, Guðmundur Franklín og Arngrímur Friðrik Pálmason hafið rafræna undirskriftasöfnun.

Það á eftir að koma í ljós hvort fyrrnefndir þrír nái lágmarksfjölda undirskrifta, haldi framboðinu til streitu eða hvort aðrir bjóði sig einnig fram áður en frestur til að skila inn framboðum rennur út.

Bjóði enginn annar en Guðni sig fram segja lögin um framboð og kjör forseta Íslands í 12. grein:

„Nú hefur aðeins einn maður verið í kjöri til forsetaembættisins, og er hann þá rétt kjörinn forseti Íslands án atkvæðagreiðslu, enda fullnægi hann kjörgengisskilyrðum. Gefur Hæstiréttur út kjörbréf handa honum þegar að liðnum framboðsfresti.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×