Enski boltinn

Meðallaun yfir 478 milljónir á ári en enginn nálægt því að borga eins vel og Man. City

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sergio Aguero og félagar í Manchester City fá mjög vel borgað.
Sergio Aguero og félagar í Manchester City fá mjög vel borgað. Getty/Shaun Botteril

Manchester City borgar langmest allra félaga í Englandi en nágrannarnir í Manchester United féllu aftur á móti niður um 23 sæti yfir þau íþróttafélög heimsins sem borga leikmönnum hæstu launin.

Þeir sem hafa gaman að því að pæla í launum atvinnuíþróttamanna ættu að geta grúskað heilmikið í nýrri launakönnun sem Guardian segir frá í dag.

Leikmenn Manchester City fá bestu launin af öllum liðum í ensku úrvalsdeildinni en meðallaun leikmanna deildarinnar fóru í fyrsta sinn yfir þrjár milljónir punda á ári.



Þrjár milljónir punda á hverjum tólf mánuðum þýða að leikmenn í ensku úrvalsdeildinni eru að meðaltali að fá yfir 478 milljónir íslenska króna í laun á ári. Þetta kemur fram í launakönnun Global Sports meðal leikmanna ensku úrvalsdeildarinnar.

Manchester City borgar hæstu launin af öllum leikmönnum ensku úrvalsdeildarinnar en Englandsmeistararnir eru að borga leikmönnum sínum 134 þúsund pund að meðaltali á viku. Leikmenn City eru því að fá yfir 21 milljón íslenskra króna á viku eða meira en þrjár milljónir króna á öllum sjö dögum vikunnar.

Meðalmaðurinn í ensku úrvalsdeildinni fær aftur á móti 61.024 pund í vikulaun, 9,7 milljónir króna, og hefur þessu upphæð hækkað um tíu þúsund pund, 1,6 milljónir, á aðeins tveimur árum.

Könnun Global Sports náði yfir allar íþróttadeildir heimsins og þar kom í ljós að Manchester City er samt „bara“ í þrettánda sæti.

Barcelona er það lið sem borgar hæstu launin eða 9,83 milljónir punda að meðaltali á hvern leikmanna á ári eða meira en einn og hálfan milljarð íslenskra króna. Það sem skilar þó Börsungum fyrst og fremst í fyrsta sætið er að félagið er að borga Lionel Messi meirs en fimmtíu milljónir punda fyrir tímabilið sem gera rétt tæpa átta milljarða í íslenskum krónum.

Real Madrid er í öðru sæti yfir hæstu launin en Juventus hoppar síðan úr níunda sæti upp í það þriðja. Þar munar eflaust mikið um komu Cristiano Ronaldo til félagsins. Hin sjö sætin á topp tíu listanum skipa síðan lið úr NBA-deildinni í körfubolta. Portland Trailblazers er hæst þeirra liða.

Alls komast fimm fótboltalið inn á topp tuttugu listann en það eru Barcelona, Real Madrid, Juventus, Paris Saint-Germain og Manchester City.

Næsthæsta enska félagið er Manchester United sem er í 33. sæti. United hefur þó dottið niður um 23 sæti á listanum síðan í fyrra en laun leikmanna liðsins minnkum mikið þegar liðinu mistókst að komast í Meistaradeildina.

Það er hægt að skoða alla þessa könun með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×