Lögreglan á Suðurlandi rannsakar enn bruna sem upp kom í sumarhúsi í Grímsnesi fyrr í mánuðinum. Elís Kjartansson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir í samtali við Vísi að ekkert bendi til íkveikju af ásetningi að svo stöddu.
Annars vegar sé horft til þess hvort kviknað hafi í út frá rafmagnstöflu eða út frá logandi kertum sem voru í bústaðnum.
Eigandi bústaðsins var við bústaðinn þegar eldurinn kom upp og tilkynnti sjálfur um hann til lögreglu. Vegna rannsóknarhagsmuna og ástands mannsins var hann fluttur í fangageymslu á meðan vettvangsrannsókn fór fram og lögreglan var að ná utan um málið.
Morguninn eftir var maðurinn svo yfirheyrður og sleppt að lokinni skýrslutöku. Aðspurður segir Elís að aðrir hafi ekki verið handteknir vegna brunans.
Ekkert sem bendir til íkveikju af ásetningi
