Enski boltinn

„Klopp gæti komið Rotherham upp í ensku úrvalsdeildina en ekki Guardiola“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guardiola og Klopp hafa mæst bæði í Þýskalandi og á Englandi.
Guardiola og Klopp hafa mæst bæði í Þýskalandi og á Englandi. vísir/getty

Paul Merson, sparkspekingur og fyrrverandi leikmaður Arsenal, segir að Jürgen Klopp sé betri knattspyrnustjóri en Pep Guardiola.

Liverpool er 14 stigum á undan Manchester City í ensku úrvalsdeildinni og allt bendir til þess að Rauði herinn verði Englandsmeistari í vor.

„Þetta er allt Klopp að þakka. Hann hefur byggt þetta lið upp. Og hann er að vinna Guardiola þrátt fyrir að hafa ekki eytt nálægt því jafn háum fjárhæðum,“ skrifaði Merson í pistli sínum á Daily Star.

Máli sínu til stuðnings segir Merson að Klopp gæti gert Rotherham United að úrvalsdeildarliði.

„Klopp gæti komið Rotherham upp í ensku úrvalsdeildina ef hann fengi tíma. Guardiola getur ekki gert það. Hann þarf 80-90 milljóna punda leikmenn til að leikkerfið hans gangi upp, öfugt við Klopp,“ sagði Merson.

Guardiola hefur vissulega eytt hærri upphæðum í leikmannakaup en Klopp. Hann hefur þó aldrei keypt leikmann sem kostar 80-90 milljónir punda eins og Merson heldur fram.

Klopp tók við Liverpool haustið 2015. Undir hans stjórn varð liðið Evrópumeistari í vor og heimsmeistari félagsliða í síðustu viku.

Merson hefur mikið álit á Klopp.vísir/getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×