Erlent

Harðnandi mótmæli á Indlandi

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar

Mikill fjöldi Indverja hefur mótmælt af krafti síðustu daga eftir að þingið samþykkti umdeilt frumvarp um ríkisborgararétt fyrir innflytjendur aðra en múslima. Forsætisráðherrann segir málið snúast um að skýla ofsóttum.

Hið svokallaða CAB-frumvarp sem snýst um að veita öllum þeim sem komu ólöglega til Indlands frá nágrannalöndunum, en eru ekki múslimar líkt og flestir íbúa þeirra landa, ríkisborgararétt. Yfirlýstur tilgangur þessa er að gera Indland að griðarstað þeirra sem sæta trúarlegum ofsóknum.

Málinu hefur verið mótmælt af mismunandi ástæðum. Í Assam-ríki lýstu íbúar yfir óánægju vegna andstöðu við ólöglega innflytjendur. Málstaður mótmælenda í höfuðborginni Nýju-Delí var annar.

Höfuðborgarmótmælendum þykir þingið vera að mismuna múslimum, líkt og hindúaþjóðernishyggjuflokkurinn sem stýrir Indlandi hefur oftsinnis verið sakaður um. Þá þykir hin nýja löggjöf brjóta í bága við ákvæði um fertugustu og aðra stjórnarskrárbreytinguna sem kveður á um veraldarhyggju, að trúarbrögð eigi ekki að ráða för.

Mótmælendum í höfuðborginni lenti saman við lögreglu í nótt. Kveikt var í strætisvögnum og lögregla varpaði táragasi. Í Assam hafa um 1.500 verið handtekin og lögregla hefur skotið fimm mótmælendur til bana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×