Erlent

Tússaðir minnispunktar Trump vekja athygli

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Minnispunktar Trump.
Minnispunktar Trump. Vísir/Getty
Minnispunktar sem tússaðir voru stórum stöfum á minnisblað sem Donald Trump studdist við er hann ávarpaði fréttamenn fyrir utan Hvíta húsið í dag hafa vakið athygli, á sama tíma og talið er að vitnisburður lykilvitna í dag í rannsókn fulltrúadeildar Bandaríkjaþings á meintum embættisbrotum hans muni koma sér illa fyrir forsetann.

Fjölmiðlar víða um heim hafa fjallað um minnisblaðið þar sem sjá má skrifað með stórum stöfum setningar á borð við

„Ég vil ekkert“, „ég vildi ekki greiða fyrir greiða“ og „þetta er lokaorðið frá forseta Bandaríkjanna“.

Líkt og sjá má á meðfylgjandi myndbandi studdist Trump mikið við minnisblaðið er hann ávarpaði fréttamenn þar sem hann ítrekaði að hann hafi ekki „viljað neitt“ frá Vólódómír Selenskí, forseta Úkraínu.

Trump hefur verið sakaður um að hafa beitt yfirvöld Úkraínu þrýstingi með því markmiði að fá Úkraínumenn til að hefja tvær rannsóknir sem myndu nýtast Trump með pólitískum hætti. Þannig myndi Úkraína ekki fá hundruð milljóna dollara aðstoð frá Bandaríkjunum nema yfirvöld þar í landi myndu hefja rannsóknirnar sem Trump vildi fá í gang.

Önnur rannsóknin sem Trump vildi átti að beinast að Joe Biden, forsetaframbjóðanda Demókrata, og hin snýr að stoðlausri samsæriskenningu um forsetakosningarnar 2016.

Demókratar í fulltrúadeildinni vilja meina að með þessari bón um „greiða fyrir greiða“ (e. quid pro quo) hafi Trump framið embættisbrot sem geti varðað sviptingu embættis. Hafa Demókratar rannsakað hin meintu brot, snýst rannsóknin að miklu leyti um símtal Trump og Selenskí, þar sem Trump hefur verið sagður hafa farið fram á að fá greiða á móti greiða frá Úkraínuforseta.

Minnispunktarnir voru á nokkrum blaðsíðum.Vísir/Getty
Talið er að vitnisburður Gordon Sondland, sendiherra Bandaríkjanna gagnvart Evrópusambandinu, um málið muni koma sér illa fyrir Trump. Sondland kom í dag fyrir njósnamálanefnd fulltrúadeildarinnar.

Í máli hans kom fram að hann og Rudy Guiliani, einkalögmaður Trump, og aðrir hafi beitt yfirvöld Úkraínu þrýstingi með því markmiði að fá Úkraínumenn til að hefja rannsóknirnar tvær, vegna þess að Trump hafi skipað þeim að gera það.

Þegar Trump ávarpaði fréttamenn, vopnaður minnisblaðinu, var hann að svara vitnisburði Sondland. Sagði hann meðal annars að hann þekkti Sondland ekki vel, þrátt fyrir að sá síðarnefndi hafi styrkt innsetningarathöfn forsetans með framlagi upp á eina milljón dollara, um 120 milljónir króna.


Tengdar fréttir

Vann með Giuliani í Úkraínu að skipan Trump

Gordon Sondland, sendiherra Bandaríkjanna gagnvart Evrópusambandinu, segir að hann, Rudy Guiliani, einkalögmaður Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, og aðrir hafi beitt yfirvöld Úkraínu þrýstingi með því markmiði að fá Úkraínumenn til að hefja tvær rannsóknir sem myndu nýtast Trump með pólitískum hætti, vegna þess að Trump hafi skipað þeim að gera það.

Bjóða Trump að svara spurningum þingmanna

Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, bauð í gær Donald Trump, forseta, að mæta á fund þingmanna og svara spurningum þeirra varðandi rannsókn fulltrúadeildarinnar á mögulegum embættisbrotum forsetans.

Sondland sagðist fara eftir skipunum Trump

Fyrrverandi meðlimur þjóðaröryggisráðs Hvíta hússins viðurkennir að hafa lagt til að hylja gögn um símtal á milli Trump og Zelensky. Þrátt fyrir það sagðist hann ekki hafa heyrt neitt óviðeigandi í símtalinu.

Sagði símtalið umdeilda óviðeigandi

Alexander Vindman, meðlimur þjóðaröryggisráðs Hvíta hússins, segir umdeilt símtal Donald Trump og Volodymir Zelensky, forseta Bandaríkjanna og Úkraínu, hafa verið óviðeigandi. Það hefði ekki verið rétt af Trump að biðja erlendan þjóðarleiðtoga að rannsaka bandarískan borgara og pólitískan andstæðing hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×