Fyrirtækið ArcticLAS ehf. fékk á dögunum leyfi frá Umhverfisstofnun til afmarkaðrar notkunar á erfðabreyttum rottum.
Um hvítar brúnrottur er að ræða. Heimild er til þess að flytja inn og rækta sextíu erfðabreyttar rottur á ári en dýrin eru fengin úr alþjóðlegum rottubönkum.
Ráðgert er að nýta tilraunarotturnar við rannsóknir á arfgengri heilablæðingu sem greinst hefur á Íslandi.
Rotturnar bera stökkbreytingu sem gerir það að verkum að dýrin gætu verið sjúkdómsmódel fyrir arfgenga heilablæðingu. Umrætt fyrirtæki er einnig í nánu samstarfi við Háskóla Íslands um rannsóknir á músum.

