Körfubolti

Íslandsmeistararnir völtuðu yfir Grindavík

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Valskonur fagna sigri á Íslandsmótinu í fyrra.
Valskonur fagna sigri á Íslandsmótinu í fyrra. Vísir/Daníel
Íslandsmeistarar Vals unnu stórsigur á Grindavík í fyrstu umferð Domino's deildar kvenna í kvöld. Haukar höfðu betur gegn Skallagrími og Snæfell vann Breiðablik.

Valskonur tóku strax forystuna í leiknum í Grindavík og voru 40-27 yfir í hálfleik. Í seinni hálfleik juku þær forystu sína hægt og þétt og unnu að lokum 49-96 sigur.

Kiana Johnson var stigahæstur í liði Vals með 23 stig og 11 stoðsendingar. Helena Sverrisdóttir skoraði 19 stig. Kamilah Jackson var stigahæst í liði Grindavíkur með 15 stig.

Snæfell tók á móti Breiðabliki og vann þægilegan sigur.

Heimakonur tóku forystuna í upphafi leiks og héldu henni það sem eftir lifði. Þær voru með 33-24 forskot í hálfleik og lauk leiknum með 76-48 sigri Snæfells.

Veera Pirttinen var stigahæst í liði Snæfells með 20 stig, stigi meira en Anna Soffía Lárusdóttir sem skoraði 19. Í liði Blika var Violet Morrow stigahæst með 19 stig.

Í Borgarnesi áttust Skallagrímur og Haukar við og voru það gestirnir úr Hafnarfirði sem fóru með sigur.

Skallagrímur byrjaði leikinn betur en Haukar náðu að jafna og var staðan í hálfleik 39-38 fyrir Hauka. Leikurinn var mjög jafn í seinni hálfleik en fór að lokum svo að Haukar unnu 72-66 sigur.

Lovísa Björt Henningsdóttir fór fyrir Haukum og skoraði 18 stig. Hjá Skallagrími var Keira Robinson stigahæst með 19.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×