Þann þriðja október tóku gildi breytingar á lánareglum Lífeyrissjóðs verslunarmanna sem meðal annars fela í sér lækkun fastra vaxta verðtryggra lána en vextir óverðtryggðra lána haldast óbreyttir. Þar að auki voru gerðar ýmsar breytingar sem fela í sér þrengri skilyrði til lántöku til að draga úr útlánavexti.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, var gestur í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun en hann segir að þótt vaxtalækkun sé af hinu góða séu teikn á lofti.
„Með lægri vöxtum þá eykst afborgunargeta á hærri lánum, sem þýðir á mannamáli að þetta skilar sér í meiri þenslu á fasteignamarkaði.“
Staðið hafi yfir vinna að tillögum um hvernig hægt sé að bregðast við þessu.
„Bæði það að lægri vextir hafi ekki neikvæðáhrif á markaðinn og sömuleiðis hvernig er hægt að tryggja almenningi og fyrirtækjum, og sérstaklega almenningi, markaðsvexti hverju sinni.“
„Þetta er erfitt mál, þetta er erfitt mál fyrir mig og okkar stefnu. Það sem við höfum verið að gera er að teikna upp lausn sem getur gengið bæði fyrir lífeyrissjóðina og almenning. Það virðist ríkja algjört stefnuleysi varðandi vaxtaákvarðanir hjá lífeyrissjóðunum. Þeir eru komnir einhvern veginn upp að vegg.“
Hann vilji að lífeyrissjóðirnir hugsi upp á nýtt hvernig vaxtaákvarðanir séu teknar. Það sé að hans mati algjörlega galið að stjórnir lífeyrissjóðanna taki ákvarðanir um vexti, sem er einmitt eitt af hlutverkum stjórna lífeyrissjóðanna. Þá segir Ragnar að hann sjái fyrir sér að koma á fót einhvers konar íbúðalánabanka.
„Við erum að skoða þessa hugmynd í VR. Og við höfum myndi ég segja sýnt ákveðið frumkvæði áður og erum óhrædd við að koma með nýjar hugmyndir í stað þess að kasta inn handklæðinu.“