Tillaga til þingsályktunar um skipun rannsóknarnefndar til að kanna starfshætti ákæruvalds og dómsvalds í Guðmundar- og Geirfinnsmálum er í lokavinnslu á Alþingi. Samkvæmt greinargerð með tillögunni er tilgangur hennar að „fá loksins skiljanlegan botn í hin gömlu Guðmundar- og Geirfinnsmál með rannsókn á mögulegri misbeitingu valds og ólögmætum aðferðum, þeim veigamiklu þáttum sem réttarkerfið hefur aldrei treyst sér til að taka til skoðunar.“
Fyrsti flutningsmaður tillögunnar er Helga Vala Helgadóttir, en samflokksmenn hennar í Samfylkingunni flytja málið með henni. Í tillögunni er lagt til að skipuð verði sérstök þriggja manna rannsóknarnefnd, í samræmi við lög um rannsóknarnefndir, „sem geri sjálfstæða og óháða rannsókn á starfsháttum ákæruvalds og dómsvalds í Guðmundar- og Geirfinnsmálum.
Nefndin kanni hvort og þá hvaða meinbugir voru á starfsháttum ákæruvalds og lögreglu við meðferð málanna sem og málsmeðferð fyrir dómi. Rannsóknin taki einnig til aðkomu þýska rannsóknarlögreglumannsins Karls Schütz.“
Í greinargerð með tillögunni eru tiltekin nokkur dæmi sem flutningsmenn telja að rannsaka þurfi nánar; svo sem ítrekuð brot á réttarfarsreglum, fjarvistarsannanir sem ekki voru kannaðar og fölsuð gögn sem lögð voru fram í sakadómi. Flutningsmenn nefna einnig síðari tíma dæmi af aðdraganda endurupptökunnar.
Vísað er til gagna um meinta refsiverða háttsemi rannsakenda sem endurupptökunefnd er sögð hafa stungið undir stól en nefndin féllst ekki á að refsiverð háttsemi starfsmanna réttarkerfisins væri grundvöllur endurupptöku. Þetta þurfi að rannsaka.
Þá er einnig lögð áhersla á að rannsaka þurfi sérstaklega mögulegan þátt rannsakenda í því að þrjú ungmennanna, sem sakfelld voru á sínum tíma, báru sakir á svokallaða Klúbbmenn. En þau hafa enn ekki verið sýknuð af þeim röngu sakargiftum sem þau voru sakfelld fyrir
Vilja rannsókn á ákæru- og dómsvaldi

Tengdar fréttir

Segir ríkið hafna nútímavísindum til þess að „fara sem verst með sakborningana“
Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Guðjóns Skarphéðinssonar sem stefnt hefur ríkinu til greiðslu bóta með dráttarvöxtum upp á 1,3 milljarða króna, segir ríkislögmann ekki vera sjálfstæða stofnun.

Nýjustu vendingar í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu furðulegar, sorglegar og með ólíkindum að mati þingmanna
Þrír þingmenn segja nýjustu vendingar í Guðmundar- og Geirfinnsmálunum ýmist vera sorglegar, furðulegar eða með ólíkindum. Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar, segir settan ríkislögmann láta eins og ekkert hafi gerst í málinu frá árinu 1990.

„Katrín Jakobsdóttir hefði getað afstýrt þessari nýjustu árás“
Barnabarn Tryggva Rúnars Leifssonar segir að forsætisráðherra ætti að skammast sín fyrir sinn þátt.