Trúnaðarmannaráði Sameykis er fullkomlega misboðið með því að viðsemjendur þeirra bjóði upp á jafn mikinn hægagang í kjaraviðræðum og reyndin sé. Þetta kemur fram í ályktun ráðsins.
Samninganefnd Sameykis hefur átt í viðræðum við samninganefndir ríkis, Reykjavíkurborgar og Sambands íslenskra sveitarfélaga síðastliðið hálft ár. „Sýnilegur árangur af þeim viðræðum er enginn og telur ráðið óverjandi að halda viðræðunum áfram á þessum nótum,“ segir í ályktuninni.
Minnir ráðið á að viðræðuáætlanir hafi fyrir sumarfrí verið framlengdar til 15. september og ríki friðarskylda til þess tíma. Ljóst sé að samningar náist ekki fyrir þann tíma og viðræðurnar séu í algerum ólestri. Skorar trúnaðarmannaráðið á samninganefnd Sameykis að hugsa viðræðurnar upp á nýtt, gerist ekkert markvert á næstu dögum.
Sameyki varð til með sameiningu SFR og Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar í janúar síðastliðnum. Félagsmenn eru um 12 þúsund.
