Fótbolti

Mark og stoðsending hjá Arnóri í stórsigri

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Arnór Ingvi hefur verið að spila vel með Malmö
Arnór Ingvi hefur verið að spila vel með Malmö vísir/getty
Arnór Ingvi Traustason var á meðal markaskorara Malmö í stórsigri á Kalmar í sænsku úrvalsdeildinni í dag.

Arnór Ingvi kom við sögu strax á þriðju mínútu leiksins þegar hann lagði upp mark Sören Rieks. Erfið byrjun heimamanna í Kalmar varð verri þegar Romarinho var rekinn af velli strax á níundu mínútu með beint rautt spjald.

Heimamenn þurftu því að leika nærri allan leikinn einum færri.

Markus Rosenberg setti tvö mörk sitt hvoru megin við hálfleikinn og kom Malmö í 3-0 áður en Rieks þakkaði Arnóri fyrir stoðsendinguna í upphafi leiks með því að leggja upp mark íslenska landsliðsmannsins á 60. mínútu.

Jo Inge Berget gulltryggði svo 5-0 sigur Malmö með marki á 70. mínútu.

Kolbeinn Sigþórsson var í byrjunarliði AIK sem mætti Djurgården á sama tíma. Sebastian Larsson skoraði eina markið úr vítaspyrnu á 23. mínútu og tryggði AIK sigurinn.

Kolbeinn var tekinn af velli eftir rúmlega klukkutíma leik.

Þrátt fyrir tapið situr Djurgården enn á toppi deildarinnar með 47 stig. AIK er hins vegar komið aðeins stigi á eftir þeim í öðru sætinu og Malmö fylgir þeim fast á eftir í þriðja sæti með 44 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×