Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fráfarandi dómsmálaráðherra, hefur skipað Hildi Sverrisdóttur, aðstoðarmann sinn, sem formann þingmannanefndar um málefni útlendinga og innflytjanda.
Nýr dómsmálaráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, tekur við á ríkisráðsfundi á Bessastöðum klukkan 16 í dag. Það er því eitt síðasta verk Þórdísar í því sama embætti að skipa Hildi formann nefndarinnar.
Þórdís kynnti skipanina á ríkisstjórnarfundi í morgun og hefur óskað eftir tilnefningum allra þingflokka og fulltrúa forsætis-, félagsmála-, og menntamálaráðuneytis.
Hildur er varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi borgarfulltrúi.
Nefndin sem hún kemur til með að stýra á að vera „sameiginlegur vettvangur þingmanna og fulltrúa ráðherra og ráðuneyta fyrir upplýsingaöflun og upplýsingaskipti til að dýpka skilning þingmanna á málaflokknum.
Nefndin hefur jafnframt það hlutverk að vera til samráðs um framkvæmd útlendingalaga og eftir atvikum endurskoðun laga og reglugerða á málefnasviðinu með mannúðarsjónarmið og skilvirka þjónustu til grundvallar,“ segir í tilkynningu á vef ráðuneytisins.
Óttarr Proppé, sem þá var þingmaður Bjartrar framtíðar, fór fyrir þverpólitískri þingmannanefnd sem starfaði á árunum 2014 og 2015 og hafði það verkefni að endurskoða heildarlög um útlendinga.
Nefndin sem Hildur fer nú fyrir á að vera til samráðs um framkvæmd þeirra sömu laga og eftir atvikum endurskoða þau sem og reglugerðir.
Hildur Sverrisdóttir formaður nefndar um útlendingamál
Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
