Málstofan fer fram á Nauthóli á morgun, 10. september, frá kl. 9:00-11:30. Fyrirtæki á borð við Marel, Íslandsbanka, Te og kaffi og Áveituna á Akureyri, koma til með segja frá reynslu sinni af þátttöku í alþjóðlegri þróunarsamvinnu. Á málstofunni verður jafnframt myndband frumsýnt sem fjallar um ýmis samstarfstækifæri fyrirtækja og félagasamtaka sem starfa á þessum vettvangi.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra flytur opnunarávarp en fyrsta erindið er flutt af Hrund Gunnsteinsdóttur, framkvæmdastjóra Festu, og kallast „Ásetningur fyrirtækja að gera heiminn að betri stað.“ Þá ræðir Viktoría Valdimarsdóttir, sérfræðingur hjá ábyrgum lausnum, um ávinning fyrirtækja af þróunarsamvinnu. Stella Samúelsdóttir, framkvæmdastýra UN Women, segir frá samstarfstækifærum fyrirtækja og félagasamtaka í þróunarsamvinnu og Sigurlilja Albertsdóttir, sérfræðingur hjá utanríkisráðuneytinu, kynnir samstarfssjóð við atvinnulíf um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Þá verða sagðar reynslusögur fyrirtækja af þátttöku í þróunarsamvinnu.
Fundarstjóri er Logi Bergmann Eiðsson.
Að átakinu standa Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, Rauði Krossinn, UN Women, UNICEF, SOS barnaþorpin, Barnaheill, ABC barnahjálp, Kristniboðssambandið, Hjálparstarf kirkjunnar, Sól í Tógó, ásamt utanríkisráðuneytinu.
Þessi grein er hluti af samstarfi Vísis og utanríkisráðuneytisins um miðlun frétta af þróunarsamstarfi Íslands um allan heim. Fréttin birtist fyrst í Heimsljósi, upplýsingaveitu utanríkisráðuneytisins um þróunar- og mannúðarmál.