Innlent

Össur ferðast með utanríkisráðherra

Ari Brynjólfsson skrifar
Össur Skarphéðinsson
Össur Skarphéðinsson Fréttablaðið/Anton
Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, ferðast með Guðlaugi Þór Þórðarsyni, núverandi utanríkisráðherra, í vinnuheimsókn í Grænlandi.

Össur er formaður starfshóps um aukin samskipti Íslands og Grænlands. „Ég tók að mér fyrir ríkisstjórnina, gegn betri vitund og öllum pólitískum prinsippum, að stýra þessum hópi sem á að bæta með bestum hætti samskipti Íslands og Grænlands vegna þess að það rímar við mína fortíð,“ segir Össur.

Guðlaugur Þór og Össur munu heimsækja ýmis fyrirtæki og sveitarfélög í suðurhluta Grænlands en þó nokkuð er um íslenskar fjárfestingar í þessum hluta landsins.

Guðlaugur Þór mun funda með Ane Lone Bagger sem fer með utanríkismál í Grænlensku landsstjórninni. Tvíhliða samskipti þjóðanna á sviði viðskipta og menningar og málefni norðurslóða eru meðal þess sem er á dagskrá fundarins. Össur gat ekki svarað því hvort ráðherrarnir muni ræða ummæli Donalds Trump Bandaríkjaforseta um kaup á Grænlandi.

„Ég get ekki talað fyrir ráðherrann en mér líst betur á að Grænlendingar kaupi Ameríku. Það er álíka raunhæft og þessi hugmynd Trumps, sem er eins og margt sem frá honum komi, dálítið skondin.“




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×