Innlent

Telur frávísunarkröfu vanhugsað skref hjá Sambandi sveitarfélaga

Sveinn Arnarsson skrifar
Flosi Eiríksson.
Flosi Eiríksson. Vísir/Vilhelm
Samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga (SÍS) hefur farið fram á frávísun í máli sem Starfsgreinasambandið (SGS) vísaði til Félagsdóms. Með málinu sem var dómtekið í byrjun vikunnar vildi SGS láta reyna á ákvæði frá 2009 um skyldu sveitarfélaga til viðræðna um jöfnun lífeyrisréttinda.

„Þessi einstrengingslega afstaða hjá sambandinu fer verulega illa í okkur. Það eru rosalega mikil vonbrigði að þeir vilji ekki bara láta málið ganga strax til efnislegrar umfjöllunar og fá úr því skorið,“ segir Flosi Eiríksson, framkvæmdastjóri SGS.

Lögfræðingar SÍS fengu frest til næsta þriðjudags til að skila greinargerð um frávísunina. Flosi óttast að málið muni því tefjast mikið, jafnvel þótt frávísun yrði hafnað. Veita þyrfti annan frest til að skila greinargerð um efnisatriði málsins.

„Þegar við lýstum því yfir að við ætluðum með málið fyrir félagsdóm var því býsna vel tekið af okkar samningsaðilum. Við litum svo á að það væri leið út úr þessu þrátefli.“

Flosi segir að ákvörðun SÍS liðki ekki fyrir viðræðum. „Allt er þetta hluti af heild og þetta flýtir ekki fyrir því að klára kjarasamninginn í heild sinni. Ég held að þetta hafi verði býsna vanhugsað skref hjá sambandinu,“ segir Flosi.


Tengdar fréttir

SGS vísar deilu til Félagsdóms

Vilja láta reyna á túlkun samningsákvæðis frá 2009 um skyldu sveitarfélaga til að ganga til kjarasamningsviðræðna um jöfnun lífeyrisréttinda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×