Innlent

Fjórðungur lambahryggja fluttur út

Sveinn Arnarsson skrifar
Tæplega þrjú þúsund tonn af lambakjöti hafa verið flutt út frá upphafi síðustu sláturtíðar.
Tæplega þrjú þúsund tonn af lambakjöti hafa verið flutt út frá upphafi síðustu sláturtíðar. Fréttablaðið/GVA
Frá síðustu sláturtíð hafa verið flutt úr landi um 400 tonn af lambahryggjum eða hryggsneiðum. Árleg framleiðsla á hryggjum hér á landi er um 1.400 tonn. Á þá eftir að telja hvað hefur farið af hryggjum og hryggsneiðum þegar heilir og hálfir skrokkar eru sendir úr landi. Langt er síðan jafn lítið hefur verið til af lambakjötsbirgðum í landinu

Í lok júní voru til í landinu um 1.100 tonn af lambakjöti sem ætti að duga út ágústmánuð en rúmlega 500 tonna af lambakjöti er að jafnaði neytt mánaðarlega hér á landi.

Framleiðsla á lambakjöti síðasta haust var um 10.500 tonn. Um það bil 65 prósenta þess er neytt hér á landi. Því sem eftir er þarf að koma úr landi á sem bestu verði til að kjötið safnist ekki fyrir hér á landi. Oft á tíðum er um að ræða hliðarafurðir sem við Íslendingar viljum síður á okkar veisluborð. Hins vegar er það staðreynd að bændur fá jafn mikið í beingreiðslur fyrir það kjöt.

Frá upphafi sláturtíðar hafa afurðastöðvar og sláturleyfishafar flutt úr landi rétt tæplega þrjú þúsund tonn af lambakjöti. Meðalverð útflutts lambakjöts á þessu tímabili er um 710 krónur á kílóið og hefur verð hækkað á síðustu árum.



Guðfinna Harpa Árnadóttir, formaður Landssambands sauðfjárbænda, segir stutt í slátrun og að menn hafi kannski spennt bogann of hátt síðasta haust við útflutning. Hún vill sjá meira samráð milli sláturleyfishafa og afurðastöðva til að útflutningur sé sem hagkvæmastur. „Það eru ekki birtar opinberar birgðaupplýsingar og því erfitt að greina hvort um skort sé að ræða. Í lok júní voru rúmlega 1.100 tonn frá síðustu sláturtíð eftir sem er mjög lítið. Það er ekki langt síðan þessi tala var miklu hærri. Það er um tveggja mánaða sala þegar tveir mánuðir eru í sláturtíð.“ 

„Ég sem formaður Landssambands sauðfjárbænda er ekki í aðstöðu til að meta hvort menn hafi flutt of mikið út. Hins vegar hefur maður það á tilfinningunni að það hafi verið skotið yfir markið. Á móti kemur að sláturleyfishafar segja þessa hryggi sem fluttir eru úr landi ekki þá hryggi sem við þekkjum úti í búð.“ Að mati Landssambandsins eru kröfur verslunarmanna um að innflutning settar fram til að gera áhlaup á það sem er kölluð eðlileg verðmyndun á íslenskum markaði. 

„Kappið hjá Samtökum verslunar og þjónustu og Félagi atvinnurekenda snýst um að gera áhlaup á eðlilega verðmyndun á íslenskum markaði allt næsta ár með því að flytja inn mikið magn hryggja með undanþágu frá alþjóðlegum tollasamningum Íslands,“ sagði í yfirlýsingu sauðfjárbænda.

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, vísar þessu til föðurhúsanna og segir álagningu verslana lága á íslenskar landbúnaðarvöður. Bændur fái líka lágt verð fyrir sína vöru. „Að okkar mati í þessu tilviki eru það afurðastöðvarnar sem eru að taka stærsta hlutann af kökunni. Bændur fá lítið og verslunin lítið í formi álagningar þannig að böndin berast alltaf að afurðastöðvunum,“ segir Andrés.

Sauðfjárbændur fengu 5,2 milljarða króna frá ríkinu á þessu ári. Þegar Guðfinna Harpa er spurð hvort það skjóti ekki skökku við að þessi vara, sem skattgreiðendur borgi fyrir í formi ríkisstyrkja, skuli vera flutt út segir hún það góða spurningu. „Auðvitað er þetta spurning sem er eðlilegt að menn velti fyrir sér. Hluti þess sem fer út eru aukaafurðir sem fylgja óhjákvæmilega og er ekki markaðsvara hér á landi.“

vísir/eyþór



Fleiri fréttir

Sjá meira


×