Ólafía Þórunn Kristinsdóttir tekur ekki þátt á Íslandsmótinu í golfi um helgina.
Hún fékk óvænt boð um að taka þátt á Opna skoska meistaramótinu sem hefst á fimmtudaginn. Ekkert verður því af þátttöku hennar á Íslandsmótinu sem hefst einnig á fimmtudaginn á Grafarholtsvelli, heimavelli Ólafíu.
Opna skoska er sameiginlegt verkefni hjá LET Evrópumótaröðinni og LPGA-mótaröðinni í Bandaríkjunum.
Valdís Þóra Jónsdóttir tekur líka þátt á Opna skoska sem fer fram á Renaissance-vellinum við North Berwick í Skotlandi.
Ólafía hefur þrisvar sinnum orðið Íslandsmeistari, síðast 2017. Hún var hér á landi í gær og tók þátt í Einvíginu á Nesinu.

