Í frétt frá Oxfam segir að aðeins hafi tekist að afla fjár fyrir þriðjungi þeirrar neyðaraðstoðar sem metin var nauðsynleg til að bjarga mannslífum. Ekki sé með núverandi fjármagni hægt að hjálpa öllum og viðbótarfjármagn dragi úr hættunni á enn frekari neyðarástandi.

Hungursneyð í þessum heimshluta árið 2011 leiddi til þess að rúmlega 260 þúsund manns vesluðust upp og dóu. Svipað ástand skapaðist árið 2017 en þá var hungursneyð afstýrt með framlögum sem söfnuðust í skyndi og umfangsmiklu hjálparstarfi. Milljónir manna eru þó enn að koma undir sig fótunum eftir þá þurrkatíð og eru því enn í viðkvæmari stöðu, að mati Oxfam.
„Við getum ekki beðið eftir því að myndir af vannærðu fólki og dauðum skepnum fylli sjónvarpsskjáina. Við þurfum að bregðast við strax til að forðast hörmungarástand,“ segir Lydia Zigomo, svæðisstjóri Oxfam.
Þessi grein er hluti af samstarfi Vísis og utanríkisráðuneytisins um miðlun frétta af þróunarsamstarfi Íslands um allan heim. Fréttin birtist fyrst í Heimsljósi, upplýsingaveitu utanríkisráðuneytisins um þróunar- og mannúðarmál.