Tillagan felst í uppbyggingu á sérstökum gróðurhvelfingum við Stekkjarbakka sunnan við Elliðaárdalinn. Gróðurhvelfingarnar verði að hluta niðurgrafnar og mótaðar inn í landið. Þannig sé landnotkunin í samræmi við aðalaskipulalag Reykjavíkurborgar 2010-2030.
Tillagan var samþykkt í borgarráði í gær með með fjórum atkvæðum fulltrúa meirihlutans gegn þremur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu til að fresta málinu svo hægt væri að fjalla um það og afgreiða í borgarstjórn, en því var hafnað. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir að meirihlutinn hafi einfaldlega talið að ekki væri eftir neinu að bíða.
„Borgarráð fer með hlutverk borgarstjórnar á þessum árstíma. Málið hefur verið lengi í undirbúingi og kynningu. Það voru haldnir opnir íbúafundir í vor og svo framvegis. Það er búið að svara öllum athugasemdum ítarlega og koma til móts við mjög margar af þeim áhyggjum sem hafa verið settar fram þannig við töldum ekki eftir neinu að bíða,“ sagði Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík.
Tillagan er nokkuð umdeild en í bréfi sem Umhverfisstofnun sendi skipulags- og samgönguráði Reykjavíkur kemur fram að það sé mat stofnunarinnar að byggingar muni þrengja að vatnsviðinu og yfirtaka hluta af útivistarsvæði sem nú er ætlað almenningi. Dagur segir að þessum athugasemdum hafi verið svarað ítarlega.
„Það var einfaldlega gert mjög ítarlega eins og alltaf er gert þegar verið er að undirbúa deiliskipulag. Þarna voru settar fram nokkrar ábendingar varðandi afmörkun svæðisins og önnur atriði sem einfaldlega er farið yfir af deiliskipulagshöfundum og sérfræðingum umhverfis- og skipulagssviðs,“ saði Dagur.
