Alves tilkynnti um brottför sína frá PSG á Instagram síðu sinni í morgun.
„Ég vil þakka PSG fjölskyldunni fyrir tækifærið til að búa til nýjar blaðsíður í sögubókum félagsins. Ég vil þakka öllu starfsfólkinu fyrir sitt framlag frá fyrsta degi. Þið gerið þetta félag örlítið sérstakara,“ er meðal þess sem segir í kveðju Alves.
Hann gekk í raðir PSG frá Juventus sumarið 2017 og hjálpaði PSG að vinna frönsku deildina tvívegis auk þess að verða tvisvar bikarmeistari.
Alves er einn sigursælasti leikmaður evrópskrar knattspyrnu í seinni tíð en hann vann spænsku deildina sex sinnum með Barcelona, ítölsku deildina einu sinni með Juventus, Evrópudeildina tvisvar með Sevilla og Meistaradeild Evrópu þrisvar með Barcelona auk fjölda bikartitla með öllum þessum félögum.