Körfubolti

Dinkins: Ég er leiðtoginn í þessu liði og læt þetta ekki koma fyrir aftur

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Dinkins í leiknum í kvöld
Dinkins í leiknum í kvöld vísir/bára
Keflavík tapaði fyrsta leik úrslitaeinvígisins í Domino‘s deild kvenna fyrir Val í Origohöllinni að Hlíðarenda í kvöld. Brittanny Dinkins sagðist taka ábyrgð á því hversu flatar Keflvíkingar voru í upphafi.

„Það augljósa eru stigin sem þær fá eftir sóknarfráköst og tapaðir boltar hjá okkur,“ sagði Dinkins aðspurð hvað hafi farið með leikinn.

„Þær eru gott sóknarlið en þær voru ekki að hitta á sinn dag og við náðum ekki að nýta það.“

„En mér finnst við vera á góðum stað. Úrslitin eru auðvitað ekki þau sem við vildum en við vitum hvað við þurfum að gera, stíga út og taka fráköst.“

Keflavíkurliðið kom ekki af nógu mikilli orku inn í leikinn og leikurinn var frekar bragðdaufur í upphafi.

„Sem leikmaður þá ertu í upphitun og líður vel en svo þegar þú kemur inn í leikinn þá kemur stundum einhver dýfa. Ég þurfti að finna mig aftur og finna hvað kæmi mér í gang.“

„Ég náði því í seinni hálfleik. En ég er leiðtogi í þessu liði og þegar ég byrja af krafti þá byrja þær af krafti. Ég tek ábyrgð á þessu sem leiðtogi og þetta mun ekki koma fyrir aftur.“

Í undanúrslitunum lenti Keflavík 2-0 undir gegn Stjörnunni en kom til baka og vann einvígið. Það er ekki í boði í þetta skiptið sagði Dinkins.

„Við vitum að Valur er mjög gott lið og við getum ekki tekið áhættuna að lenda 2-0 undir gegn þeim. Þær eru stemmningslið og það veit ekki á gott. Við verðum að vinna næsta leik.“

Liðin mætast öðru sinni í Keflavík á miðvikudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×