Innlent

Segjast ítrekað hafa óskað eftir leiðbeiningum frá ráðuneytinu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Ráðuneytið komst að þeirri niðurstöðu að álagning OR á vatnsgjaldi ársins 2016 hafi verið ólögmæt.
Ráðuneytið komst að þeirri niðurstöðu að álagning OR á vatnsgjaldi ársins 2016 hafi verið ólögmæt. Vísir/vilhelm
Orkuveita Reykjavíkur óskaði ítrekað eftir leiðbeiningum frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu um hvað leggja skuli til grundvallar við álagningu vatnsgjalda eftir að ráðuneytið úrskurðaði að vatnsgjald OR fyrir árið 2016 hefði verið ólögmætt, að því er fram kemur í tilkynningu frá OR. Þá séu fjárhagsleg áhrif úrskurðarins óveruleg við fyrstu sýn.

Greint var frá því í dag að ráðuneytið hefði komist að þeirri niðurstöðu að álagning OR á vatnsgjaldi ársins 2016 hafi verið ólögmæt. Í úrskurðinum sagði m.a. að með öllu óheimilt sé að ákveða hærra gjald fyrir vatnsveitu en nemur meðalkostnaði af því að veita þjónustuna, líkt og OR hafi gert.

OR heldur því fram í tilkynningu í lögum um vatnsveitur sveitarfélaga sé sagt að nánar skuli kveðið á um umrætt atriði í reglugerð. Slík reglugerð hafi hins vegar ekki verið sett og hafi OR vísað til leiðbeiningarskyldu stjórnvalda í erindum sínum til ráðuneytisins.

Þá hafi gjaldskrár vatnsveitu hjá OR, sem reknar eru af dótturfyrirtækinu Veitum, í grundvallaratriðum fylgt þróun vísitölu byggingakostnaðar síðasta áratuginn. Tvisvar á síðustu árum hafi vatnsgjöld lækkað og svari sú lækkun samtals 13,1%.

„Ráðuneytið vísaði frá kröfu kæranda um endurgreiðslu. Þar sem gjaldskrár hafa verið lækkaðar í takti við batnandi afkomu vatnsveiturekstursins virðast fjárhagsleg áhrif úrskurðarins við fyrstu skoðun óveruleg. Þessi áhrif skýrast þegar samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur veitt leiðsögn um gjaldskrárnar,“ segir í tilkynningu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×